141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[16:53]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get alveg tekið undir þá sýn hv. þingmanns að þetta sé hálfgerð tímasóun. Í fyrsta lagi vegna þess að ég tel að þær breytingar sem hér er verið að boða séu verri fyrir sjávarútveginn heldur en gera ekki neitt. Ég held í öðru lagi að það séu allt önnur mál á Alþingi sem er brýnna að vinna að og klára núna á síðustu dögum þingsins. Í þriðja lagi er það enn og aftur staðreynd að ekki hefur verið leitað eftir samstarfi, sátt eða einhvers konar samvinnu um það hvers konar mál eigi að leggja fram.

Ég tók þátt í vinnu þeirrar stóru nefndar sem hv. þingmaður nefndi. Ég held að þær tillögur og hugmyndir sem komu fram þar hafi verið alveg prýðilegar og hefði átt að vinna meira með þær á þeim grunni að menn leituðu sátta um einhverjar breytingar.