141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[17:02]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Herra forseti. Í ljósi þeirra orðaskipta sem hér fóru fram á milli hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar og hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur á vel við það sem ég ætla að byrja ræðu mína á. Það eru 15 þingdagar, herra forseti, eftir af þessu þingi miðað við starfsáætlun þingsins og allir geta séð að þetta mál er ekki að fara í gegn á einungis 15 þingdögum. Málið er í 1. umr. Það á eftir að fara inn til nefndar. Þar á það eftir að fara í umsögn. Þar eiga sérfræðingar eftir að koma og veita umsögn um málið. Þar eiga eftir að koma gestir. Síðan er eftir 2. og 3. umr. málsins.

Við sjáum vel að tilgangurinn með því að leggja fram þetta mál núna á lokaspretti kjörtímabilsins er fyrst og fremst sá að ríkisstjórnin geti slegið sér upp á því enn einu sinni að hún sé sú eina sem vilji breyta umgjörð sjávarútvegs í landinu.

Rifjum upp feril málsins þetta kjörtímabil. Hann byrjaði á svokallaðri sáttanefnd sem átti að fara yfir málið. Frá því að hún lauk störfum hefur það meira og minna verið í ágreiningi, ekki milli stjórnar og stjórnarandstöðu heldur innan stjórnarliðsins. Við höfum orðið vör við það hér fyrir hver einustu þinglok að stjórnarliðið sjálft er að rífast um þessa grundvallaratvinnugrein þjóðarinnar.

Svo bar við að nýr formaður var kosinn í Samfylkingunni. Hv. þm. Árni Páll Árnason kom hnarreistur út af þeim fundi og boðaði að nú væri nýr tími í stjórnmálum hafinn þar sem við ættum í auknum mæli að leita sátta og breiðrar samstöðu um stór mál. Samfylkingin sem jafnaðarmannaflokkur Íslands mætti ekki alltaf vera ofan í skotgröfunum og í stríði við allt og alla. (Gripið fram í: Heyr.) Þetta eru göfug sjónarmið.

En hvað gerðist svo? Rétt eftir að hv. þingmaður hafði lokið þessum orðum sínum ætlaði allt að sjóða upp úr innan Samfylkingarinnar. Þá kom í ljós að hæstv. forsætisráðherra er enn starfandi formaður og þrátt fyrir að hv. þm. Árni Páll Árnason sé orðinn formaður að nafninu til ætlar hæstv. forsætisráðherra áfram á hnefanum. Hæstv. forsætisráðherra ætlar áfram að takast á um þetta mál, stjórnarskrármálið og fleiri mál hér á síðustu metrum þingsins þegar allir hafa gert sér grein fyrir því, meira að segja margir stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar, að ekki er nokkur möguleiki á að klára þau á svo skömmum tíma.

Jafnvel þótt menn mundu vilja breyta sjávarútvegskerfinu, eins og meðal annars hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson kom inn á í ræðu sinni í gær og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson einnig hér áðan, eru tvær vikur einfaldlega allt of skammur tími til þess að koma fram með svo veigamikið frumvarp og ætla sér að klára það á þeim tíma. Rétt eins og tvær vikur eru allt of skammur tími til þess að klára breytingar á stjórnarskrá eins og núverandi stjórnarmeirihluti hefur ætlað sér að gera. Þessu hafði hv. þm. Árni Páll Árnason auðvitað gert sér grein fyrir. En þessu hafa þeir sem standa í stafni og standa í brúnni í ríkisstjórninni ekki gert sér grein fyrir.

Þá hlýtur maður að velta því fyrir sér hvort eitthvað hafi verið að marka það þegar menn töluðu um ný vinnubrögð, um að nú ætti að leita sátta, um að ganga yrði fram með öðrum hætti. Einnig þegar menn töluðu um það þegar Icesave-dómurinn féll að við ættum í auknum mæli að leita víðtækari sátta um mál. Það sagði meðal annars hv. þm. Magnús Orri Schram, að við ættum að læra af Icesave-málinu, við ættum að læra það að kalla fleiri til, skoða ólík sjónarmið og leita breiðrar sáttar í stórum málum.

Það er áhyggjuefni að málið sem við ræðum hér sé búið að veltast um í fjögur ár innan ríkisstjórnarinnar. Þegar hæstv. núverandi atvinnuvegaráðherra tók við þessum málaflokki á sínum tíma var boðað að hægt ætti að vera að klára það á nokkrum vikum eða mánuðum. Síðan þá er málið búið að veltast og veltast. Það er ekki gott fyrir neina atvinnugrein, hvort sem það er sjávarútvegur, fyrirtæki í þjónustugeira, fyrirtæki í annarri auðlindavinnslu eða í hverju sem er, að heildarumgjörðin sé alltaf á reiki, að menn viti aldrei hvað sé handan við hornið. Þá er enginn að tala um að ekki sé í lagi að gera breytingar á rekstrarumgjörð fyrirtækja. En nú er umgjörðin utan um þennan stærsta atvinnuveg þjóðarinnar búin að vera í upplausn í fjögur ár, svo koma menn og ætla að klára mál á 15 þingdögum.

Þetta ber þess auðvitað merki að þeir sem ráða hér för hafi ekki skilning á mikilvægi þess að skapa stöðugleika í kringum rekstrarumgjörð atvinnugreina.

Það er auðvitað ekkert skrýtið ef við skoðum alþjóðlegan samanburð atvinnulífsins hér á landi við nágrannaríki okkar að við skulum alltaf vera að falla á þeim listum. Það er ekki eingöngu vegna efnahagshrunsins. Í alþjóðlegum samanburði hefur meðal annars komið fram að þegar borin er saman ytri umgjörð fyrirtækja, pólitísk óvissa, skattkerfi og annað, hefur Ísland hrapað niður á fjórum árum frá því að vera í topp 20 í að nálgast neðstu sæti á þessum listum. Þegar borin er saman á skattlagning á fyrirtæki eða hvatning fyrirtækja til þess að vaxa og ráða til sín fólk og auka tekjur er Ísland komið niður fyrir lönd eins og Mósambík, Haítí og fleiri lönd. Já, það hlæja margir hér í salnum, en þetta er bláköld staðreynd og hún er mjög alvarleg.

Ekki er verið að tala um að þjóðin eigi ekki að fá sinn skerf af auðlindinni, að fyrirtækin eigi ekki að skila til samfélagsins og svo framvegis, en það verður að ríkja skilningur á því hvað er mikilvægt þegar menn eru að reka fyrirtæki. Það verður að ríkja skilningur um að sama hvað menn starfa við þá verða þeir að geta gert áætlanir í það minnsta einhverja mánuði fram í tímann. (Gripið fram í.) Það hefur ekki verið hægt í tíð sitjandi ríkisstjórnar og þess vegna er Ísland að falla á öllum listum þegar kemur að þessum málum. Það er auðvitað miður, því öllu máli skiptir að við getum skapað tekjur og að fólk hafi atvinnu.

Það er tvennt sem er mjög mikilvægt að átta sig á og mig langar að koma hér inn á. Það er annars vegar að sjávarútvegurinn á Íslandi er einsdæmi varðandi það að hann stendur undir sér. Það þarf ekki að ríkisstyrkja sjávarútveg á Íslandi. Það er ekki sjálfgefið, í mörgum nágrannaríkjum okkar er sjávarútvegur gríðarlega mikið ríkisstyrktur. Það er mjög mikilvægt að við getum áfram rekið sjávarútveg á Íslandi þannig að hann sé ekki ríkisstyrktur. Ég held að það hljóti að vera ein af grundvallarforsendunum og eitt af því sem við horfum til þegar við ræðum sjávarútvegskerfið, að allar þær aðgerðir sem við ráðumst í séu ekki til þess fallnar að við séum að komast á þá braut að við munum þurfa að ríkisstyrkja sjávarútveg á Íslandi. Það verður að vera númer eitt.

Síðan eigum við að horfa til þess að byggðarlögin allt í kringum landið geti blómstrað og dafnað. Það á að vera númer tvö. Margir hafa bent á það í umræðunni og þá er enginn að tala um það að núverandi fiskveiðistjórnarkerfi sé fullkomið, ekki nokkur maður. Það má gera breytingar á því, en menn hafa bent á það, meðal annars Þóroddur Bjarnason prófessor og formaður stjórnar Byggðastofnunar, að fyrra frumvarp, sem var ekki mjög ólíkt þessu, fékk ekki jákvæða umfjöllun hjá honum og fleiri aðilum. Menn voru almennt sammála um að það frumvarp væri ekki til þess fallið að efla byggð í landinu og það eru ekki miklar breytingar á þessum tveimur frumvörpum hvað þann þátt snertir.

Að auðlindin gefi af sér til þjóðarinnar er vissulega mikilvægt. Menn verða samt líka að huga að því að mikilvægt er að hún gefi af sér inn í þau byggðarlög þar sem fyrirtæki í atvinnugreininni eru starfandi. Við verðum að haga því þannig að ekki sé gengið af atvinnugreininni dauðri. Það hefur því miður ekki tekist núna. Bent hefur verið á að sérstaklega lítil og meðalstór fyrirtæki eiga í gríðarlegum vandræðum með að greiða þetta háa auðlindagjald, það leggst mjög ójafnt á fyrirtækin og þá sem stunda útgerð. Við heyrum fréttir af því að litlu og meðalstóru fyrirtækin eru mörg hver farin að leita til stærri fyrirtækja um hvort þau geti keypt af sér aflahlutdeildir vegna þess að litlu fyrirtækin ráði ekki við veiðigjaldið.

Nú fer tíminn að styttast og því miður næ ég ekki að fara yfir allt sem ég ætlaði mér í þessari ræðu. Komið hefur verið inn á að vandinn sem við glímum við í dag sé einkum og sér í lagi fjórskiptur. Í fyrsta lagi snúi hann að markaðsmálunum og þeim vandræðum sem eru í ytri umgjörðinni. Það er gríðarlega alvarlegt að við skulum horfa upp á að verð og eftirspurn á mörgum af okkar helstu mörkuðum sé að falla mjög. Það ber auðvitað að fagna því að ríkisstjórnin sé að ranka við sér hvað þetta snertir og ætli að fara að taka þátt í einhvers konar markaðssetningarátaki til þess að leita á nýja markaði. Í það hefði allur okkar kraftur átt að fara núna því þetta eru ytri aðstæður sem við einfaldlega ráðum ekki við. Við verðum að reyna að bregðast við því þetta getur kostað okkur. Við ráðum ekki við að eftirspurn sé að dragast saman og markaðir að lokast. Við verðum að bregðast við því þetta er það sem ógnar mest þessari atvinnugrein í dag, við getum ekki haft áhrif á þetta með beinum hætti.

Síðan hafa vandamál verið rædd hér á þinginu sem snúa meðal annars að ýsukvóta. Það er líka áhyggjuefni. Þetta er eitthvað sem við sannarlega ættum að vera að ræða og reyna að klára hér á síðustu dögum þingsins, þ.e. þessi tvö mál því þau eru svo sannarlega brýn.

Ég hef komið inn á í ræðu minni það sem snýr að veiðigjöldunum og hvaða afleiðingar upphæð þeirra hefur í för með sér. Menn hljóta að spyrja sig hvaða áhrif hún hefur og hvort það sé virkilega svo að þessi litlu og meðalstóru fyrirtæki séu í svona auknum mæli að leita til stærri útgerða um að kaupa aflahlutdeildir. Það er grafalvarlegt mál því þá erum við ekki að ná því fram í byggðamálum sem við ætluðum okkur.

Svo er það sem bent hefur verið á, meðal annars af Daða Má Kristóferssyni og Þóroddi Bjarnasyni, sú óvissa að þeir sem reki fyrirtæki í þessari grein geti aldrei séð handan við hornið og viti aldrei hvað er fram undan. Þeir eigi von á hverju sem er og geta ekki gert neinar áætlanir, hvorki til lengri né skemmri tíma. Það skaðar mjög rekstrarumgjörð þessara fyrirtækja.

Þessi tvö seinustu atriði sem ég nefndi eru mannanna breytingar. Þau eru mannanna verk. Þau eru eitthvað sem við verðum einfaldlega að skoða. Við verðum að skapa þessari grein slíka umgjörð að menn geti gert áætlanir, hvort sem það eru lítil eða meðalstór fyrirtæki.

Því miður horfum upp á, eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar, að það eru 15 þingdagar eftir. Þeir sem boða ný vinnubrögð og að vinna eigi mál á faglegan og yfirvegaðan hátt koma ekki með sjávarútvegsfrumvarp inn í þingið þegar 15 dagar eru eftir og ætla sér að klára það. Það liggur ljóst fyrir að þetta mál mun ekki klárast á 15 dögum. Þá eru menn enn á ný að gera það sem ég síðast nefndi, að auka á óvissuna í greininni og ætla að skilja hana þannig eftir fram yfir kosningar í persónulegum pólitískum tilgangi, en ekki að hugsa um atvinnugreinina, framtíð hennar og umgjörð hennar.