141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[17:21]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er hrædd um að hv. þingmaður sé farinn að sjá tvöfalt ef hann telur að ég hafi verið með hnefann á lofti.

Hv. þingmaður segir að ríkisstjórnin hafi aldrei viljað fara þessa leið en veit þó mætavel að forusta nefndarinnar var í höndum fulltrúa stjórnarflokkanna. Niðurstaðan um samningaleiðina varð ljós eftir 18 mánaða samráð í þeirri nefnd. Allar götur síðan hefur verið unnið út frá tillögum nefndarinnar. Þetta frumvarp hér er útfærsla á samningaleiðinni sem kveður á um þjóðareign á auðlindinni, sem kveður á um að gerðir séu samningar um nýtingarrétt aflaheimilda til afmarkaðs tíma þar sem hinn hluti kerfisins sé hið svokallaða pottakerfi, þar sem viðhafður sé opinn leigumarkaður með aflaheimildir, leigupotturinn sem lögð var svo rík áhersla á, en jafnframt tekið tillit til byggðasjónarmiða og samfélagslegra þarfa.

Þetta mál hefur verið í stöðugu samráði og stöðugri vinnslu. Það birtist ekki 15 dögum fyrir þinglok og það er ekki verið að vinna það hér á nokkrum dögum. Málið hefur tekið fjögur ár í vinnslu. Afraksturinn er að líta dagsins ljós núna. Það er náttúrlega svolítið raunalegt að sjá menn síðan stökkva frá sínum eigin yfirlýsingum og sínum eigin bókunum í því máli. Það er átakanlegt að horfa upp á það hafandi orðið vitni að þeirri umræðu allri eins og hún hefur gengið undanfarin ár þar sem hnefinn hefur svo sannarlega verið á lofti og er á lofti í umræðunni í dag.