141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[17:48]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Eins og aðrir hv. þingmenn vil ég gera athugasemd við það hvað þetta frumvarp er seint fram komið og hve lítill tími gefst fyrir Alþingi að fara í gegnum þær breytingar sem gerðar hafa verið sem og frumvarpið sjálft. Við höfum reyndar farið í gegnum það síðastliðið vor og sumar því að það er að einhverju leyti óbreytt en að sumu leyti breytt.

Frumvarpið gengur væntanlega til nefndar. Nú veit ég ekki hvort menn ætla sér að senda það til umsagnar en það gefst ekki langur tími til umsagnar vegna þess að það eru ekki nema 15 dagar eftir. Mér finnst það eiginlega vera hálfgerð móðgun við hv. Alþingi að leggja frumvarpið svona seint fram, ef meiningin er að afgreiða það yfirleitt. Ég hef grun um að svo sé ekki, það sé meira sett fram til sýnis og til að friðþægja ákveðna hv. stjórnarliða. Ég geri athugasemd við þetta og við það hve stuttur tími vinnst til að ræða þetta mál sem skiptir þessa stærstu atvinnugrein landsins, að minnsta kosti stærstu útflutningsgrein landsins, verulegu máli. Þetta eykur enn á þá óvissu sem hún hefur mátt búa við æðilengi.

Ég ætla að byrja á því að ræða um auðlindir því að það er mikið rætt um þær. Næst á dagskrá er umræða um nýja stjórnarskrá, eitt stykki nýja stjórnarskrá, og þar er líka rætt um auðlindir. Það er svo merkilegt að þær auðlindir sem menn helst horfa til, sjávarútvegurinn og að einhverju leyti orkan, eru auðlindir sem voru ekki auðlindir fyrir ekki svo löngu. Það er bara tiltölulega stutt síðan þær urðu auðlindir. Sjávarútvegurinn var ekki auðlind, herra forseti, lengst framan af. Í gegnum Íslandssöguna hefur hann kostað fjölda mannslífa á hverju einasta ári. Það kalla ég ekki auðlind þar sem fólki er fórnað til að ná fiskinum í land. Enda var íslenska þjóðin ein sú fátækasta í Evrópu þrátt fyrir þessa svokölluðu auðlind. Útvegurinn varð ekki auðlind fyrr en aðgangurinn var takmarkaður. Þá fyrst varð hann auðlind. Af hverju var aðgangurinn takmarkaður? Vegna þess að með mannauði og mannviti voru byggð sífellt öruggari og tryggari skip sem gátu sótt fiskinn lengra og lengra og á ódýrari hátt, með minni mannskap o.s.frv. Takmarka þurfti aðganginn vegna þess að annars hefði verið hætta á því að mannauðurinn, á þessum góðu skipum, hefði veitt upp allan fiskinn.

Mannauðurinn býr til auðlindina. Hið sama má segja um fallvötnin og orkuna í þeim, svo maður tali ekki um jarðhitann þar sem Íslendingar standa einmitt mjög framarlega hvað mannauðinn varðar. Allar þessar auðlindir voru ekki auðlindir fyrir 50–100 árum eða svo. Þá voru fallvötnin til bölvunar í hverri sveit, það var mikið mál að komast yfir þau, þau einangruðu sveitirnar og voru alls ekkert auðlind.

Það er svo merkilegt að þær auðlindir sem menn segja að þjóðin eigi byggja á mannauði. Þá er spurningin: Hver er eiginlega hlutur mannauðsins í því að skapa auðlindina? Getur verið að mannauðurinn eigi meira í auðlindinni en þjóðin? Þetta eru spurningar sem vakna.

Síðan koma náttúrlega stóru spurningarnar. Hvað er þjóð? Mér sýnist að mjög margir og þeir sem hafa samið þetta frumvarp líti á þjóðina sem ríkið. Hverjir stjórna ríkinu? Það eru stjórnmálamenn og fyrst og fremst ráðherrar og ríkisstjórn. Þeir nota í rauninni hugtakið „þjóð“ til að galdra þessa auðlind undir ráðherra. Það er svo sem þekkt í mörgum ríkjum að menn hafa notað þetta hugtak til að sölsa undir ríkið alls konar eignir. Það stendur meira að segja í 2. gr. frumvarpsins að ráðherra fari með yfirstjórn mála samkvæmt lögum þessum. Það er því alveg á tæru að það er ráðherrann fyrir hönd ríkisins sem fer með þessa auðlind, fyrir hönd þjóðarinnar. Þannig að ég held að menn þurfi að hafa þetta mjög í huga.

Ég hef flutt frumvarp um að aflahlutdeildum verði dreift á alla þjóðina. Þar sem þeim er dreift á alla þjóðina getur maður haft um þær algjörlega frjálst framsal og frjálst eignarhald. Þá eru þær ekkert bundnar við skip eða útgerð eða nokkurn skapaðan hlut, menn eiga bara hlutdeild í afla þjóðarinnar þegar búið er að dreifa hlutdeildum á þjóðina. Þá myndast algjörlega frjáls markaður. Það vill svo til að sumir hv. þingmenn eru hallir undir markaðskerfi og hv. þm. Mörður Árnason, þegar maður hlustaði á ræðu hans, var eiginlega nokkuð hrifinn af markaðskerfi. Ég held að það séu þó nokkuð margir hv. þingmenn á Alþingi sem trúa á markaðskerfið, t.d. til að ákvarða verð á brauði eða smjöri eða einhverju slíku. Þeim dettur ekki í hug að láta ráðherra ákveða verðið eins og verið að gera í báðum þeim frumvörpum sem fjalla um sjávarútveginn, frumvarpi um stjórn fiskveiða og veiðigjaldafrumvarpinu sem búið er að samþykkja sem lög, þar ákveður meira að segja ráðherra og Alþingi ávöxtunarkröfu fyrir sjávarútveginn, burt séð frá öllu öðru.

Í greinargerð um frumvarpið er mikið rætt um aflamark og sóknarmark. Það er eiginlega farið í gegnum það að tilraunir með sóknarmark, svo sem skrapdagakerfið og fleiri tilraunir eins og strandveiðarnar sem eru sóknarmark, eru eiginlega dæmdar til þess að mistakast vegna þess að tíminn sem menn fá til að veiða styttist alltaf og menn veiða alltaf hraðar og hraðar. Svo er náttúrlega alltaf stórhætta á því að menn flytji afla á milli skipa úti á miðunum í þoku, að aflamarksskip moki aflanum yfir í sóknarmarksskip úti á miðunum. Þá þarf að hafa eftirlit með því líka. Það er sem sagt ákveðin áhætta í þessu fólgin. Ég er ansi hræddur um að sú tilraun sem verið er að gera með strandveiðarnar sé fyrir fram dæmd til að mistakast, en menn halda samt áfram með hana.

Þegar frumvarpið er lesið kemur í ljós að þetta kerfi minnir óhuggulega mikið á sovétkerfi. Við höfum lesið um atvinnugreinar í Sovétríkjunum hinum fornu sem sem betur fer eru nú aflögð. Það var ákveðin hagfræðileg tilraun sem stóð yfir í 70 ár og kostaði tugi milljóna manna lífið. Þar var öllu stjórnað ofan frá. Ákveðið var á einhverjum skrifborðum hvað tonnið af kolum ætti að kosta mikið og þarna ætti að búa til stál o.s.frv. Því var öllu stjórnað ofan frá. Það var enginn markaður og kostnaðurinn kom ekkert inn í málið

Hér er verið að gera nákvæmlega það sama. Það er verið að stýra öllu ofan frá. Það er ákveðið hvað eigi að veiða mikið. Ráðherra gerir þetta og ráðherra ákveður hitt. Það á að styrkja einhverjar byggðir og burt séð frá því hvort skynsamlegt sé að veiða þar fisk eða ekki skal veiddur fiskur þar. Síðan er verðmæti tegunda ákveðið með þorskígildum, það er ákveðið að ufsi sé svo og svo mörg þorskígildi og loðna o.s.frv. Það leiðir til þess að þegar veiðigjaldið er lagt á borgar sig hreinlega ekki að veiða t.d. gulllax af því að hann gefur svo lítið af sér. Menn eru búnir að ákveða við skrifborðin að þeir sem veiða gulllax skuli borga svo og svo mikið á hvert kíló, en arðsemin er bara engin. Ef þetta gengur eftir hætta menn að veiða gulllax við Ísland. Ég geri ráð fyrir því að hæstv. ráðherra komi fljótlega með frumvarp um að breyta þessu þannig að það borgi sig aftur að veiða gulllax. Í þessa stöðu erum við komin. Við erum komin í þá stöðu að hér verða gerðar sífelldar breytingar til að mismuna og lagfæra.

Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson benti á og býsnaðist yfir því að veiðileyfagjaldið væri miklu lægra á loðnu miðað við afkomu en á þorsk. Það segir mér að þorskígildistonnið fyrir loðnuna er of lágt og borgað er of lágt veiðigjald af henni. Þetta mun hæstv. ráðherra eflaust leiðrétta fljótlega, það kemur breytingartillaga um að þetta skuli leiðrétt. Þetta sýnir okkur hvað það er rangt og vitlaust að vera með kerfi sem er stýrt ofan frá.

Ég held að menn ættu að skoða miklu nánar hugmynd mína um að dreifa kvótanum á þjóðina því að þar er allt byggt á markaði. Ég er nærri viss um að ef útgerðarmenn skoðuðu það frumvarp og sæju hvað er búið að taka af þeim í fortíðinni frá því aflamarkskerfið var tekið upp 1984 og hvað er tekið af þeim með þessu frumvarpi í viðbót — það eru teknar af þeim stórar aflahlutdeildir — sæju þeir að það er betra að hafa veiðiheimildirnar í 40 ár eins og ég gerði ráð fyrir og fá algjörlega frjálst kerfi með öllum þeim markaði sem fylgir; markaði fyrir gulllax, veiðiheimildir, markaði fyrir þorskveiðiheimildir, markaði sem tekur mið af afkomu og sölumöguleikum í útlöndum, þ.e. ef verðið hækkar í útlöndum hækkar verðið á aflahlutdeildum. Ef menn sjá fram á að verðið muni lækka, eins og menn óttast núna, lækkar verðið. Það gerist ekki í því kerfi sem við erum að tala um hér. Það er allt saman stíft. Það gerist ekki fyrr en eftir tvö, þrjú ár að veiðileyfagjaldið lækkar og þá getur það hugsanlega verið of seint. Ég geri því ráð fyrir að hæstv. ráðherra muni líka leggja til breytingar á þessu ef stefnir í óefni vegna lækkandi verðs á mörkuðum.

Ég gleymdi að segja varðandi mannauðinn og auðlindina að stór hluti af verðmæti auðlindarinnar í sjávarútvegsgreinum, sem og í orkunni, kemur til vegna þess að mannauðurinn býr til sífellt verðmeiri vöru úr þeim afla sem veiðist ásamt með góðri markaðssetningu.

Ég ætla að fara í gegnum nokkur af þessum ákvæðum. Í fyrsta lagi segir í 8. gr. að það eigi að hafa tvo flokka. Að sjálfsögðu. Annar er flokkur sem einkaaðilar mega fara með og hinn er flokkur sem ráðherrann og ríkisvaldið fer með. Svo er sagt að ef heildarafli þorsks fer yfir 240 þús. tonn eigi að taka helminginn af því sem umfram er inn í ríkispottinn, en hitt megi góðfúslega vera áfram í einkapottinum, þ.e. í þau 20 ár sem eru eftir. Af hverju bara þorski? Af hverju ekki í öðrum tegundum eins og makríl eða loðnu? Það er mér gjörsamlega hulið. Hvers vegna á að taka sérstaklega fyrir útgerðir sem eru í þorski?

Það næsta sem maður rekur augun í eru 20 árin sem útgerðin fær náðarsamlegast að veiða. Það er ekki orð um það eða nein vísan í það hvað gerist eftir 20 ár. Ég hef tekið eftir því með tímann að hann líður alltaf í eina átt. Bráðum verða tíu ár eftir, svo verða eftir tvö ár og þá veit enginn hvað á að gera. Reyndar stendur í síðustu málsgrein 11. gr. að ráðherra skuli eigi síðar en í desember 2016 leggja fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum þessum. Við hv. þingmenn, löggjafinn, erum að leggja til lög sem skylda framkvæmdarvaldið til að leggja fram frumvarp til laga á Alþingi. Löggjafinn er að gefast upp á því að semja sjálfur frumvarp, það er ráðherra sem á að koma með frumvarp 2016 og í því verður væntanlega tekið á því hvað gerist eftir 20 ár. Þannig að fyrir árið 2016 veit útgerðin kannski hvað gerist eftir 20 ár. Þá verða fjögur ár liðin og þá eru 16 ár eftir.

Þetta er dæmigert fyrir þær sveiflur og þá óvissu sem útgerðin þarf að búa við.

Í 13. gr. eru alls konar ákvæði um forgangsrétt á aflahlutdeildum. Þar stendur að ef menn selja eða framselja veiðiheimildir sem eru umfram 20% frá ákveðnu byggðarlagi, skuli Fiskistofa tilkynna það til ráðherra sem er heimilt að grípa inn í með forkaupsrétti.

Nú kemur spurningin um jafnræði. Einn selur upp að 19%, svo kemur næsti og ætlar að selja og af því hann er seinni skal hann hlíta þessu með forkaupsréttinn.

En því miður, herra forseti, er ég bara rétt að byrja og óska eftir því að verða settur á mælendaskrá aftur.