141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[18:05]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni. Ég tel að þetta frumvarp geti unnið gegn ákveðinni þróun. Það er nefnilega þannig, eins og með aðrar atvinnugreinar, að sjávarútvegurinn þarf ákveðinn mannauð, hann þarf ákveðið svigrúm, hann þarf flutningsleiðir og annað slíkt og það getur verið að einhverjir staðir henti bara ekki lengur til sjávarútvegs en sjávarútvegurinn skal samt stundaður þar samkvæmt frumvarpinu.

Ég var ekki byrjaður að fara í gegnum allt varðandi línuívilnun, krókaaflamark, strandveiðar o.s.frv., ég komst ekki svo langt, en ég er á móti öllu slíku þar sem er verið að þrýsta atvinnugreinum upp á menn eða reyna að halda lífi í atvinnugrein sem hugsanlega á sér ekki rétt og ætti að vera annars staðar. Ég er miklu hlynntari því að ef menn vilja byggja upp atvinnugreinar á vissum stöðum þá geti þeir farið aðrar leiðir. Það getur verið að önnur atvinnugrein, ferðaþjónusta, stangveiðar eða annað, henti betur en útgerð á vissum stöðum og þá á bara að leyfa það og styrkja það með beinum hætti ef menn telja það nauðsynlegt eða með skattaívilnun eða öðru slíku en ekki með því að neyða menn til að veiða fisk endilega á því svæði eða stunda hefðbundna útgerð. Ég tek undir það.

Varðandi óvissuna sem útgerðin býr við vil ég minna á bráðabirgðaákvæði VIII sem gerir ráð fyrir því að 21 þús. tonn verði tekin 2012/2013 og upp í 45 þús. tonn 2015/2016. Það er ekki verið að gera neitt annað en taka af þeim sem stunda útgerð í dag, þeirra hlutdeild er minnkuð. Þetta er enn eitt dæmið um þá óvissu sem útgerðin býr við.