141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[18:07]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum svarið. Ég ætla að halda aðeins áfram að fá skoðun þingmannsins fram og þá hugsanlega stefnu Sjálfstæðisflokksins í því hvernig menn sjá fyrir sér að styrkja þessar byggðir. Þingmaðurinn sagði að það mætti meðal annars gera með skattaívilnunum. Er þá hv. þingmaður að meina að fara einhverja leið álíka norsku byggðastefnunni þar sem menn nota gjarnan skattaívilnanir til að koma til móts við þau svæði þar sem hið opinbera getur ekki veitt sambærilega þjónustu og í þéttbýli? Einnig nefndi þingmaðurinn að það mætti styrkja byggðir með beinum framlögum. Þá verður maður auðvitað að spyrja: Hvaðan eiga þeir fjármunir að koma?

Þegar við framsóknarmenn ræddum hérna um veiðigjöldin — við vorum vissulega á móti þeim, hversu há þau eru, ósanngjörn og aðferðafræðinni sem er notuð við að leggja þau á, sem er galin — þá töluðum við um að í okkar stefnu væri skynsamlegt að þessi gjöld færu að hluta til til greinarinnar sjálfrar, í markaðssetningu, í rannsóknir, hafrannsóknir og annað í þeim dúr og nýsköpun þar sem menn væru að auka verðmæti og hjálpa til við það. Eins færi hluti til byggðarlaganna, kannski ekkert ósvipað og kemur fram í frumvarpinu. Ef við hefðum lagt slíkt frumvarp fram eftir fjögurra ára setu í ríkisstjórn hefðum við náttúrlega verið búnir að ganga frá því með hvaða hætti það yrði gert en í þessu frumvarpi, hvað varðar þær tekjur sem ríkið fær af leigutekjum á kvótaþingi, virðist það vera alveg galopið og er gagnrýnt harðlega, reyndar í frumvarpinu.

Það væri áhugavert að heyra skoðun hv. þingmanns á því og nákvæmar hvernig menn kæmu að því að styrkja hinar dreifðu byggðir vegna þess að, eins og Þóroddur Bjarnason prófessor (Forseti hringir.) hefur sagt, öllum byggðunum verður ekki haldið uppi með veiðum og (Forseti hringir.) vinnslu. Það er augljóst, auðlindin er takmörkuð.