141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[18:12]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Herra forseti. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem við ræðum frumvarp til laga um stjórn fiskveiða á þessu kjörtímabili. Þetta er víst þriðja frumvarpið sem núverandi ríkisstjórn leggur fram og eins og komið hefur fram í umræðunni virðist nú ekki mikill lærdómur hafa verið dreginn af fyrri hrakförum í þessum efnum.

Því hefur verið haldið fram í umræðunni að þetta frumvarp sé þjóðarsátt, hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir hélt því fram að þetta væri tilraun til þess að slökkva ófriðarbálið. Ég óska eftir því að það verði betur útskýrt fyrir mér vegna þess að ég sé það ekki alveg. Mér finnst líka ákveðin þversögn hafa komið fram í umræðunni í dag. Því er haldið fram að frumvarpið þurfi ekki langan tíma vegna þess að ekki sé verið að leggja það fram fyrst núna 15 dögum fyrir þinglok, þetta sé frumvarp sem við eigum að gjörþekkja vegna þess að það hafi áður komið fram á þinginu og verið mikið rætt, en samt er þetta þjóðarsáttin.

Við vitum að hin frumvörpin sem rædd voru áður voru langt frá því að vera sáttafrumvörp. Ef þetta frumvarp á að fara í gegn á 15 dögum, fara til umsagnar, fara í vinnslu í nefndinni þannig að eitthvert mark sé á takandi, koma hér í 2. umr. á milli þess sem við breytum stjórnarskránni og semjum nýja og gerum allt hitt sem þessi ríkisstjórn ætlar sér að gera, hlýtur að eiga að byggja á fyrri umsögnum, það hlýtur að vera fyrst frumvarpið þarf ekki svo langan tíma. Þá erum við komin í dálitla klípu vegna þess að umsagnir við fyrri frumvörp hafa ekki verið mjög í anda þess að hér sé verið að slökkva bál heldur þykja hin frumvörpin vera miklu frekar til þess fallin að kveikja elda hingað og þangað um samfélagið og er alls engin sátt í sjónmáli hvað varðar þennan grundvallaratvinnuveg okkar. Ég óska eftir að fá betri skýringar á því.

Hver er ætlunin með þetta frumvarp? Er það virkilega ætlun stjórnarflokkanna að klára það á þessu kjörtímabili, á þessu þingi? Einn helsti talsmaður ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegsmálum, hv. þm. Björn Valur Gíslason, segir í viðtali við Fiskifréttir þann 24. janúar að engin heildarlög um stjórn fiskveiða verði samþykkt í vor. Hann segir að sjávarútvegurinn sé lifandi grein í stöðugri þróun sem kalli á vandaða lagaumgjörð hverju sinni, að full þörf sé á því að setja nýja löggjöf um málaflokkinn og laga hann að þeim breytingum sem átt hafa sér stað í umhverfi greinarinnar.

Síðan segir hv. þingmaður, með leyfi forseta:

„Ný heildarlög um stjórn fiskveiða verða hins vegar tæplega sett á yfirstandandi þingi. Það bíður betri tíma.“

Nú vil ég spyrja hv. þingmann og samflokksmann hv. þm. Björns Vals Gíslasonar: Hvort er nú rétt? Ég var því miður ekki hér í gær þegar hæstv. ráðherra mælti fyrir frumvarpinu þannig að ég gat ekki farið í umræður við hann um málið. En mér þykir margt hafa gerst frá því að þetta var sagt 24. janúar og svo kemur frumvarpið fram 31. janúar, þá er því útbýtt hér og kemur til umræðu 11. febrúar. Í dag er 12. febrúar og 15 þingdagar eftir. Mér þykir ólíklegt miðað við reynslu mína af málflutningi hv. þm. Björns Vals Gíslasonar og hæstv. ráðherra Steingríms J. Sigfússonar — venjulega tala þeir í takt þannig að mér þætti fróðlegt að vita hver ætlunin er með frumvarpið. Nefnt var í umræðunni fyrr í dag hvort þetta gæti verið pólitískt leikrit sem verið væri að setja hér upp, að koma með nýtt frumvarp inn í kosningabaráttuna, í aðdraganda kosninga og kenna okkur, íhaldinu, eina ferðina enn um að ekki náist fram þetta markmið ríkisstjórnarflokkanna. Getur það verið? Er þetta sjónarspil eða halda menn virkilega að þeir geti náð frumvarpinu í gegn?

Það er ekki margt breytt í þessu frumvarpi frá því sem áður var. Þó eru einhver einstök ákvæði tekin út eins og einhver skerðingarákvæði, 3%-ákvæðið og einhver önnur ákvæði sem voru í fyrri frumvörpum, en heildarhugsunin er enn sú sama og það er heildarhugsunin og heildarhugmyndafræðin sem hefur fengið falleinkunnina hingað til.

Síðan er það umhugsunarefni að eina ferðina enn skuli hæstv. ríkisstjórn leggja fram frumvarp sem er gjörsamlega þannig að ekki er búið að meta áhrifin af því í krónum og aurum á fyrirtækin í landinu. Hvernig munu fyrirtækin í landinu standa betur að vígi eftir þetta? Í markmiðsgreininni, 1. gr., segir að sjávarútvegurinn eigi að vera arðsamur og búa við hagstætt og stöðugt rekstrarumhverfi. Hvar sér þess stað í þessu frumvarpi? Ég sé ekki betur en að kostnaðarmatið sem fylgir hafi með engum hætti tekið á þeim þætti. Reyndar fer kostnaðarmatið meira og minna í það að gagnrýna þær fyrirætlanir að deila tekjunum til sveitarfélaganna, ríkisins og í þróunarsjóð. Þar kemur upp sú gamalkunna rimma á milli ríkisstjórnarinnar og fjárlagaskrifstofunnar og fjárlaganefndarinnar í rauninni líka, sem vill minnka markaða tekjustofna og láta tekjur ríkisins renna í ríkissjóð. Hún vill taka um það pólitíska ákvörðun um hvernig verja skuli tekjum ríkissjóðs. Kostnaðarmatið fer nánast allt saman í það þannig að ég get ekki séð að búið sé að reikna út áhrifin á fyrirtækin.

Annað sem ég mundi gjarnan vilja sjá reiknað út er: Hvernig spilar frumvarpið við lögin um veiðigjaldið, sem eru ein og sér að drepa sjávarútveginn á mörgum stöðum á landinu, sérstaklega lítil og meðalstór fjölskyldufyrirtæki? Við höfum þegar séð slæmar afleiðingar þess víða um land, í Þorlákshöfn, svo ég nefni nærtækt dæmi, og á fleiri stöðum þar sem menn hafa beinlínis þurft að grípa til uppsagna vegna veiðigjaldsins. Hvernig spila þessi tvö frumvörp saman og hver eru áhrif þeirra á einstök fyrirtæki? Halda menn virkilega að hægt verði að reikna það út á þeim 15 dögum sem eftir lifa af þessu þingi, eins flókið og það er?

Ég vil taka sérstaklega til máls um þær heimildir sem ráðherra eru veittar í þessu. Þetta er óútfylltur tékki. Ráðherra er nefndur a.m.k. 66 sinnum í þessu frumvarpi. Ég gafst upp á að telja en 66 sinnum er ráðherra nefndur á nafn bara í frumvarpinu, ekki í greinargerðinni. Ráðherra getur sett reglugerðir, ráðherra getur með reglugerð sett, ráðherra getur heimilað á grundvelli rökstuddra tillagna, ráðherra er heimilt í reglugerð, ráðherra er heimilt að ráðstafa. Svona er ráðherra gert heimilt 66 sinnum a.m.k. í þessu frumvarpi að gera hitt og þetta sem ég leyfi mér að fullyrða að ekki er búið að skoða afleiðingarnar af vegna þess að við vitum ekki hvað ráðherra ætlar að gera. Við vitum bara ekkert hvað ráðherra ætlar að gera og það verður væntanlega ekki núverandi ráðherra vegna þess að hans tíma fer að ljúka. Vonandi verða niðurstöður kosninga þannig að tíma hans í því ágæta ráðuneyti sé lokið a.m.k. að sinni. Ég ætla ekki að koma með frekari spádóma um það.

Síðan eru náttúrlega endalaus nefndastörf, það eru nefndir sem ráðherra skal setja á fót með Samtökum sveitarfélaga og hagsmunaaðilum og nefnd með fulltrúum þingflokka. Þetta frumvarp er náttúrlega bara brandari, það er algjör brandari. Hvernig á með nokkru móti að vera hægt að ímynda sér að það verði klárað á þessu þingi? Og að voga sér að segja að það sé í anda þjóðarsáttar, að voga sér að segja að þarna sé verið að slökkva einhver ófriðarbál. Ég held að það sé frekar þannig að menn standi hér með kveikjara sem nýbúið er að fylla á, enda sagði hv. þm. Björn Valur Gíslason þann 24. janúar að það yrðu tæplega sett ný kvótalög fyrir kosningar.

Þá verð ég bara að fá að spyrja hreinskilnislega: Hvað erum við að gera hérna? Af hverju erum við ekki að ræða stóru, brýnu málin sem skipta okkur öll miklu máli? (LRM: Stjórnarskrána.) Stjórnarskráin skiptir máli en breytingar á stjórnarskrá í fullkomnu ósætti er ekki brýnasta eða mest aðkallandi verkefni dagsins í dag. Það er þvert á móti, eins og nýjustu dæmin sanna og nýjustu umsagnir, ekki okkar í Sjálfstæðisflokknum, ekki þeirra í Framsóknarflokknum heldur sérfræðinga sem sérvaldir eru af ríkisstjórnarflokkunum utan úr heimi. Þeir koma með ábendingar og tilmæli um það í dag sem við erum að fara yfir.

Ég get alveg leyft mér að fullyrða að það litla sem ég hef lesið af því segir mér á mjög kurteisan, diplómatískan hátt að þessi ágæta Feneyjanefnd gefur fyrirhuguðum breytingum falleinkunn, nákvæmlega eins og ég ætla að leyfa mér að segja um þetta frumvarp. Og að segja að frumvarpið sé í nafni þjóðarsáttar er skrumskæling á því fallega orði. Við eigum einmitt að leita sátta. Við eigum að leita sátta um hvaða verkefni eru brýn, áríðandi, aðkallandi og fullkomlega nauðsynleg. Það er m.a. að koma atvinnulífinu í gang og vega ekki að því með því að færa fjármuni frá einum til annars, sem er ekki gert til þess að sjávarútvegurinn sé arðsamur og búi við hagstætt og stöðugt rekstrarumhverfi, eins og stendur í 1. gr. Nei, það er til þess að hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir geti setið og hugsað: Já, ókei, nú ætla ég að færa á milli, færa frá þessum til þessa vegna þess að mér þykir jafnræði vera fólgið í því. Það er bara ekki þannig.

Ég spyr, eins og hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir gerði fyrr í dag varðandi sveitarfélögin: Hver á að ákveða hvaða sveitarfélög fá hvað? Eru sveitarfélög eins og Hveragerði, það góða og flotta sveitarfélag en ekki mikið sjávarútvegspláss, ekki í þessum potti? Er sveitarfélag eins og Reykjanesbær, sem hingað til hefur aldrei fengið úthlutaðan byggðakvóta, allt í einu komið í pottinn og á að fá einhverja peninga sem verið er að færa til? Hvernig á að útfæra það?

Æi já, það var þannig að ráðherra ætlaði að skipa nefnd með sveitarfélögunum. Af hverju í ósköpunum var þessi nefnd ekki bara skipuð fyrir fram þannig að menn vissu að hverju þeir gengju? Þið eruð búin að hafa fjögur ár, virðulegi forseti. Fjögur ár er ríkisstjórnin búin að hafa til að koma draumakerfinu sínu á og 15 dögum fyrir þinglok er ráðherra a.m.k. 66 sinnum veitt heimild að gera hitt og þetta, algjörlega óútfært, engin tilraun er gerð til þess að meta áhrifin af því. Nei, herra forseti, þetta frumvarp er eins fjarri því að vera þjóðarsátt og nokkur möguleiki er á og er ekki til þess fallið slökkva ófriðarbál heldur verður það til þess að tendra bálið og fýra upp í því sem aldrei fyrr.