141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[18:29]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna ummæla hv. þingmanns um fólkið með eldspýturnar og hver tendrar hér ófriðarbál vil ég vekja athygli á því að stjórnarandstaðan hefur ekki dagskrárvaldið á Alþingi. Það eru ríkisstjórnarflokkarnir sem hafa dagskrárvaldið, þeir ráða hvaða mál eru sett hér á dagskrá (Gripið fram í.) — og þetta finnst hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur mjög fyndið. Ef við hefðum dagskrárvaldið værum við ekki að ræða þetta mál í dag. Ef við hefðum dagskrárvaldið værum við t.d. að ræða afnám stimpilgjalda þannig að fólk geti skuldbreytt lánunum sínum. Við værum að ræða lækkun virðisaukaskatts á barnavörur eða einhver mál sem skipta heimilin og fyrirtækin í landinu máli.

Þetta mál er pólitísk hugmyndafræði sem ríkisstjórnarflokkarnir reyna að troða ofan í kokið á þjóðinni og þjóðin vill það ekki. Hér er sagt: Hagsmunaaðilar hafa komið í veg fyrir breytingar og barist gegn þeim. Hagsmunaaðilarnir eru óvart bara einhverjir menn úti í bæ. Hver er með þingmeirihluta hér? Eru það ríkisstjórnarflokkarnir? Eða er það kannski búið að vera vandamálið þessi fjögur ár að það hefur ekki verið þingmeirihluti? Stjórnarflokkarnir hafa verið að rífast um þessi mál frá fyrsta degi.

Ég gleymi því ekki þegar hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir kom hér daginn eftir að sáttanefndin lauk störfum og sagði: Þetta er fínt. Nú er sáttanefndin búin að skila af sér. Nú getum við farið að fara eftir stjórnarsáttmálanum, samráðinu er lokið.

Það stóð aldrei til að fara eftir niðurstöðum sáttanefndarinnar. Hún var sett upp sem leiktjöld í þessu leikriti sem nú á að reyna að klára á þessu kjörtímabili. En ég held meira að segja að þau átti sig á því að málinu verður ekki lokið á þessu kjörtímabili vegna þess að hv. þm. Björn Valur Gíslason talaði af sér viku áður en (Forseti hringir.) en strategían breyttist. Jú, hendum þessu inn eina ferðina enn, þá getum við rifist við íhaldið.