141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[18:36]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til hvers er þetta frumvarp lagt fram? Stórt er spurt. Ég veit að hv. þingmaður hefur mikla trú á okkur þingmönnum Suðurkjördæmis en að við séum göldrótt og getum lesið hugsanir er kannski til of mikils mælst. Ég ætla ekki að gera neinum það upp að menn séu að leggja frumvörp fram í illum tilgangi. Ég hef fulla trú á að til dæmis hv. þingmenn Ólína Þorvarðardóttir og Lilja Rafney Magnúsdóttir trúi því virkilega að þetta sé rétta leiðin. En ég held að þeir ágætu þingmenn sem fara í blindni þessa leið eina ferðina enn ættu að gera okkur öllum þann greiða að skoða þær umsagnir og ábendingar sem komu síðast fram og ekki detta í þann pytt að kalla alla umsagnaraðila sérhagsmunagæslumenn og þess háttar vegna þess að það er ekki þannig.

Til hvers? Menn hafa hugmyndir um að hægt sé að gera þetta á betri hátt og þeim er ákveðin vorkunn. En er þetta kerfi sem búið er að gagnrýna svo mikið síðastliðin 18 ár — nei, það er lengra síðan að kvótakerfið var sett upp — þegar allt kemur til alls, eins og við höfum haldið fram, kannski skásta kerfið sem í boði er? Vega kostirnir þyngra en gallarnir? Ég er þeirrar skoðunar að þeir geri það en ég er líka þeirrar skoðunar að ekkert sé fullkomið. Eins og hv. þingmaður benti á og var falið í spurningu þingmannsins eru ákveðnir þættir sem snerta einstaka byggðir í landinu ekki gallalausir og þegar farið var í gegnum hagræðinguna á sínum tíma við upptöku kvótakerfisins voru hlutir sem (Forseti hringir.) betur máttu fara. En við lögum ekki þessi atriði með því að kollvarpa kerfinu (Forseti hringir.) án þess að koma með betri lausn og leggja hana til grundvallar hinu nýja.