141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[18:44]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hreint með ólíkindum að hlusta á þingmanninn reyna að afvegaleiða umræðuna með þessum hætti. Þetta er sami þingmaðurinn, eins og ég sagði áðan í minni ræðu, og kom hér galvösk upp daginn eftir að kvittað var undir þessa skýrslu og sagði: Ha, ha, nú er sáttanefndin búin, nú er lögbundna samráðið búið, nú förum við og útfærum stjórnarsáttmálann. En stjórnarsáttmálinn er ekki niðurstaða sáttanefndarinnar. Það sem Einar K. Guðfinnsson kvittaði þarna upp á er ekki falið í þessu frumvarpi. Langtímanýtingarsamningar — það kom fram hjá hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur í dag að menn hefðu verið að tala um fleiri áratugi. Hvaða tölu nefndi Einar K. Guðfinnsson í bókun sinni? Er hv. þingmaður með það fyrir framan sig? Nei, málið er einfalt, niðurstaða sáttanefndarinnar er því miður ekki lögð til grundvallar í þessu plaggi. Það er búið að tosa þetta og teygja til þess eins að ná sátt á milli hv. þingmanna Ólínu Þorvarðardóttur, Marðar Árnasonar, Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur og fleiri aðila (Gripið fram í.) sem hafa verið með derring í þingflokkum stjórnarflokkanna. Það er það sem hefur verið á endanum lagt til grundvallar sem málamiðlun. Ekkert annað.

Varðandi spurninguna um Vestmannaeyjar og hvaða áhrif núverandi kvótakerfi hefur haft á Vestmannaeyjar verð ég að segja að með dugnaði, elju og gríðarlegri uppbyggingu hefur byggst upp frábær, stöndugur og sterkur sjávarútvegur í Vestmannaeyjum. Það sem er í ágreiningi núna er einmitt atriði sem við getum hugað að í sameiginlegri skoðun, eins og ég nefndi áðan. Það er fullt af atriðum í kvótakerfinu sem við getum skoðað. Nú er það mál farið í (Forseti hringir.) dómsferli og við verðum að sjá hver niðurstaðan verður úr því, en stöndugri (Forseti hringir.) sjávarútveg en í Vestmannaeyjum er erfitt að finna.