141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[18:47]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Nú skal ég tala mjög lágt til að æra ekki hv. þingmann. En ég skal tala frekar skýrar svo að hún nái örugglega því sem ég er að segja. Það er nú einu sinni þannig að það er ekki bara sú sem hér stendur sem heldur því fram að niðurstaða sáttanefndarinnar liggi ekki til grundvallar frumvörpum ríkisstjórnarinnar. Það var sagt þegar fyrsta frumvarpið var lagt fram, kennt við Jón Bjarnason — er það ekki bílslysið? Svo kom lestarslysið, kennt við Steingrím J. Sigfússon. Síðan kemur þetta frumvarp. Ég skal gera mér það að leik að reyna að telja saman hversu margir aðilar hafa haldið því sama fram og ég, að niðurstöðu sáttanefndarinnar sjái ekki stað í frumvörpum ríkisstjórnarinnar. Ég skal gera það fyrir hv. þingmann vegna þess að það er augljóst að þótt maður tali hátt eða bara rólega og skýrt virðist það ekki ná í gegn.