141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[19:39]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður segir að ég var bæjarstjóri á Ísafirði en ekki það ár sem hún nefndi, 1990. Ég kom til Ísafjarðar um mitt ár 1994. Þá var þar allt í rúst í útgerð, svo það sé sagt. Vestfirðingum hafði gengið mjög illa í þessari atvinnugrein og þeir selt frá sér kvóta út og suður um allar trissur. Ég gekk sem bæjarstjóri á milli útgerða á norðanverðum Vestfjörðum til að reyna að efla þá til samstöðu um að reyna að halda þessu skipi og aflaheimildunum á svæðinu. Það er óþarfi að lengja umræðuna með því að fara yfir hvernig það gekk. Eigendur þessa fyrirtækis taka einir og sjálfir ákvörðun um hvort þeir selja, hverjum þeir selja og hvenær þeir selja. Það er bara þannig. Það er hægt að fara vendilega yfir þá sögu en þarf þó til þess lengri tíma en eitt andsvar. En ég get fullyrt að við þessa einu tilteknu sölu útgerðar hurfu ekki 900–1.200 störf eins og hv. þingmaður gaf til kynna.