141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[19:51]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það má lesa út úr þessu frumvarpi að tilgangur þess sé öðrum þræði að bregðast við byggðaþróun og reyna að draga úr afleiðingum þess sem menn vilja meina að komi frá því fyrirkomulagi sem nú er við lýði, þ.e. kvótakerfinu. Vissulega er það rétt að breytingar hafa orðið í byggð á Íslandi á undanförnum árum og má rekja þær víða til aðstæðna í sjávarútvegi.

Virðulegur forseti. Það er rétt að setja þetta mál í sögulegt samhengi. Þegar sjávarþorpin á Íslandi voru að myndast og þeim fór að vaxa fiskur um hrygg var verið að veiða hér um og yfir 300 þús. tonn af þorski á ári sem mestmegnis eða alfarið kom að landi og var unnið í fiskvinnslum í þorpunum og sjávarbyggðunum vítt og breitt. Þetta var frekar mannaflsfrek vinnsla. Byggðamynstrið sem varð hér til og þróaðist endurspeglaði það.

Svo komu menn á þann stað að breyta varð fiskveiðistjórnarkerfinu vegna þess að fyrir lá að sóknargetan var langt umfram það sem fiskstofnarnir þoldu. Þá varð að takmarka sóknina. Við reyndum það með skrapdagakerfinu og við þekkjum hvernig það fór. Sú tilraun mistókst og við tókum upp svokallað kvótakerfi. En byggðamynstrið, eins og ég segi, byggði meðal annars á þessum afla. Af því að hér hefur verið rætt um Vestfirði og þorpin þar þá eru þau þorskveiðisamfélög sem áttu allt sitt undir þorskveiðum á Íslandsmiðum. Síðan var aflinn og sérstaklega þorskaflinn skorinn mjög harkalega niður. Það var gengið mjög langt í þeim niðurskurði. Vitanlega urðu samfélögin sem byggðu tilvist sína á þorskveiðum harðast úti. Útgerðarbæir eins og Vestmannaeyjar og á Austfjörðum gátu bjargað sér vegna uppsjávaraflans sem hjálpaði til og fleytti mönnum yfir mikla erfiðleika sem voru í þorskveiðunum. Því var ekki til að dreifa vestur á fjörðum.

Rétt er að hafa í huga þegar menn velta fyrir sér byggðaþróuninni á Vestfjörðum, þ.e. á þeim tíma sem var á árunum fyrir 1990 og kenndur var við fastgengisstefnuna, að verðbólgan æddi hér áfram og laun hækkuðu í takt við hana en útflutningsatvinnuvegirnir og þau byggðarlög sem byggðu á útflutningi máttu þola það að gengi krónunnar var fast. Þetta var í lagi fyrir þá sem stunduðu til dæmis viðskipti í Reykjavík, innflutning, og voru að selja inn á markaðinn og gátu bara hækkað verð sitt eftir því sem kostnaður hækkaði, en þeim blæddi út sem bjuggu við fast gengi og útflutning. Í kjölfar þess var heildarafli í þorskveiðum skorinn niður.

Virðulegur forseti. Mér þykir menn stundum fara nokkuð frjálslega með þegar sagt er að kvótakerfið hafi haft þessar afleiðingar. Þá þykir mér menn líta fram hjá sögu sem ætti að vera okkur í fersku minni, hefði ég haldið.

Kvótakerfið er ekki gallalaust fyrirkomulag. Það hefur þann galla, sérstaklega fyrir minni byggðarlögin sem búa jafnvel við að það að hafa einn útgerðaraðila, að upp getur komið sú staða, ég þekki það vel t.d. í þorpi sem ég tengist vel og hef gert lengi, vestur á Flateyri, að útgerðarmaðurinn ákveður að selja og þá standa menn frammi fyrir töluvert miklum vanda. Þess vegna er mikilvægt að til sé fyrirbæri eins og byggðakvóti, að hægt sé að mæta því þegar mikil og snögg breyting verður eins og varð vestur á Flateyri fyrir örfáum árum. Það var reyndar líka gert, svo að ég haldi mig við Vestfirði, á Þingeyri þegar vandi steðjaði þar að. Þá var tekið mjög myndarlega á þeim vanda. Til þess er byggðakvótakerfið. Kvótakerfið, kerfi framseljanlegra aflaheimilda, er að mínu mati langbesta stjórnkerfið sem við eigum kost á við fiskveiðar, en það er ekki gallalaust. Það er heldur ekki þannig að búið sé að finna það upp í eitt skipti fyrir öll og ekkert sé hægt að bæta við það eða gera það betra.

Grundvallaratriðin þurfa að vera á hreinu. Þau eru þessi: Öryggi, framseljanleiki, að menn geti verið vissir um réttindi sín og hægt sé að eiga viðskipti með þau og að samhengi sé á milli vísindalegrar ráðgjafar Hafrannsóknastofnunar annars vegar og hins vegar þeirra sem nýta auðlindina.

Þetta er ekkert smáræðishagsmunamál fyrir okkur Íslendinga. Við eigum allt undir því að nýta fiskimið okkar sem best og mynda sem mestan arð. Það er á grundvelli þess sem við getum rekið hér velferðarþjónustu, heilbrigðisþjónustu og allt það sem nútímasamfélag krefst. Ef við nýttum ekki fiskimiðin við Ísland vel væri Ísland mun fátækara land og það væri algerlega ómögulegt að bjóða upp á þá þjónustu sem við viljum geta gert til að geta borið okkur saman við þau lönd sem við viljum helst líkjast í þeim málum.

Í ljósi þess sem ég sagði hér áðan er nauðsynlegt að rugla ekki saman verðmætasköpuninni annars vegar og hins vegar því þegar menn fara að telja störfin. Hvað á ég við með þessu? Jú, virðulegi forseti, menn benda mjög oft á og segja: Tilgangurinn með þessu öllu saman er að fjölga störfum. — En tilgangurinn er auðvitað fyrst og síðast að skapa sem mest verðmæti þannig að til verði verðmæti fyrir þjóðina sem nýtast bæði sem skatttekjur eða andlag fyrir ríkið til að skattleggja, þ.e. hagnað, og til endurfjárfestinga og fjárfestinga út fyrir greinina. Það er engin skynsamleg regla sem felst í því að aldrei megi fara peningar úr sjávarútvegi í einhverjar aðrar atvinnugreinar, enda á iðnaður á Íslandi alveg gríðarlega mikið undir því að sjávarútvegurinn bæði kaupi þjónustu og fjárfesti í iðnaði ef það á við.

Strandveiðarnar eru að mínu mati ekkert annað en endurtekning á því fyrirkomulagi sem við bjuggum við fyrir kvótakerfið, þ.e. skrapdagakerfinu sem byggði á ákveðnum heildarafla og síðan gæti hver sem er farið á veiðar. Við þekkjum hvernig sú þróun var öllsömul. Skrapdagakerfið virkaði þannig að alltaf fjölgaði bátunum svo að fækka þurfti dögunum. Heildarverðmæti jukust ekki en sóknarkostnaðurinn óx ár frá ári. Fram kemur í texta þessa frumvarps, skýringum, þar sem verið er að ræða um að auka eigi í þennan strandveiðipott, gera hann varanlegan o.s.frv., að fleiri hundruð bátar hafi farið á sjó til að ná í þennan afla, afla sem áður kom að landi með mun færri skipum. Hvað þýðir þetta? Þetta þýðir að tekjur þjóðarbúsins, tekjur okkar Íslendinga, jukust ekki vegna þessa af því að þessir fiskar hefðu komið að landi hvort sem var. En hvað gerðist? Kostnaðurinn við að ná í aflann, útgerðarkostnaðurinn, jókst sem þessu nam. Allur þessi afli kom að landi áður, það var sóknargeta fyrir honum, en allt í einu fara fleiri hundruð bátar í viðbót á sjó til að sækja aflann með tilheyrandi olíukostnaði, kostnaði við mannahald o.s.frv. Skyldi þetta vera skynsamlegt? Skyldi það vera skynsamlegt fyrir íslenska þjóð að auka strandveiðarnar? Ef það er skynsamlegt að hafa 5 þús. tonn í strandveiðum, af hverju er þá ekki skynsamlegt að hafa 10 þús. tonn eða 15 þús. tonn eða 20 þús. tonn? Hvers vegna ekki? Auðvitað vita menn að þetta er óskynsamlegt þegar horft er til heildarhagsmuna íslensku þjóðarinnar.

Virðulegi forseti. Það er margt í þessu máli sem þarf mikillar athugunar við. Ég ætla að benda á eitt. Með því að við drögum úr hagkvæmni fiskveiða á Íslandi, með því að auka eins og lagt er til hér pólitísk afskipti, auka strandveiðar og alls konar potta sem stjórnmálamenn eiga að hafa puttana í, þá erum við að draga úr möguleikum sjávarútvegsins til að bregðast við áföllum. Við erum að draga úr hagkvæmninni.

Nú telja margir, t.d. í Samfylkingunni, að nauðsynlegt sé fyrir Íslendinga að ganga í Evrópusambandið. Ef það yrði niðurstaðan og það yrði tekin hér upp evra þá má ljóst vera að ekki verður hægt að sveiflujafna í gegnum gengið. Með öðrum orðum, þegar einhver áföll verða, svo sem markaðsbrestir eða aflabrestur, sem áður hefur verið brugðist við með því að gengi íslensku krónunnar endurspeglaði stöðu útflutningsatvinnuveganna þá þarf að gera það með einhverjum öðrum hætti. Eftir því sem við drögum úr hagkvæmni í sjávarútvegi er ljóst að möguleikar þeirrar greinar til að bregðast við slíkum áföllum, að því gefnu að ekki sé hægt að gera það í gegnum gengið, verða minni og minni. Þess vegna finnst mér svo furðulegt að flokkur sem er að berjast fyrir því að ganga í Evrópusambandið og taka upp þá efnahagsstefnu sem því fylgir skuli samþykkja að sjávarútvegsráðherra leggi fram frumvarp sem gengur þvert á þá hugsun. Ef menn ætla sér að ganga í Evrópusambandið er eins gott að sjávarútvegurinn sé sem öflugastur þannig að hann geti sveiflujafnað vegna þess að hann getur ekki gert það í gegnum gengið.

Það er óþarfi að taka það fram af minni hálfu að ég tel ekki skynsamlegt að ganga í Evrópusambandið. Ég skil ekki ríkisstjórnina, að ákveða að leggja fram þetta frumvarp þegar annar stjórnarflokkurinn hamast við að koma landinu inn í ESB og hinn hefur verið meðreiðarsveinn í því með því að samþykkja aðildarumsóknina að ESB.

Virðulegi forseti. Ég greip hérna með mér umsögn sem Farmanna- og fiskimannasamband Íslands sendi frá sér. Þar segir, með leyfi forseta, og má segja að það rammi inn allt sem þarf að segja um frumvarpið sem hér er verið að ræða um:

„Það frumvarp sem nú liggur fyrir er að stærstum hluta byggt á frumvarpi fyrra árs. Þær breytingar sem gerðar hafa verið eru að mati samtaka skipstjórnarmanna til þess fallnar að gera málið enn verra og var það þó nógu slæmt fyrir.

Þær breytingar sem fram komu í nýju frumvarpi munu allar leiða til versnandi afkomumöguleika umbjóðenda okkar og gera stækkandi hóp manna að leiguliðum stjórnvalda. Slík leið mun ekki leiða til sátta innan greinarinnar, öðru nær.“

Þetta er býsna skýrt. Okkar verkefni, verkefni Alþingis Íslendinga er að gera það sem við getum til að tryggja að sjávarútvegurinn sé hagkvæmur og um leið að hægt sé að bregðast við óæskilegri eða of hraðri byggðaþróun eða byggðaröskun. Ég tel að fyrir því séu rök að gera breytingar varðandi byggðakvóta og á þessu kerfi en það sem hér er lagt upp með er ekki skynsamlegt rétt eins og kemur fram hjá Farmanna- og fiskimannasambandinu.

Ég vil að lokum gera eitt að umtalsefni af því að mjög gjarnan er talað um þjóðareign. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að það væri miklu nær og miklu heiðarlegra að tala um ríkiseign. Það er miklu skýrara, það nær sínu marki. Hvernig á maður að skilja það þegar lagt er til í þessu frumvarpi þegar kemur að ráðstöfunum tekna aflamarksins, sem eiga að fara í ríkissjóð, að 40% eigi að fara til ríkisins, 40% til sveitarfélaga og 20% til markaðs- og þróunarsjóða?

Sagt er, með leyfi forseta:

„Hvað snertir ráðstöfun til sveitarfélaga sýnist eðlilegt að tekið verði meðal annars mið af sögulegu mikilvægi sjávarútvegs á einstökum svæðum …“

Bíddu nú við, var ekki hugsunin sú að þetta væri einhvers konar þjóðareign? Af hverju á að mismuna íbúum landsins, ef það er niðurstaðan, eftir því hvort það er löng saga sjávarútvegs þar eða ekki? (Gripið fram í: Ertu ekki að því á hverjum degi?) Bíddu nú við, er ég ekki að því á hverjum degi? Ef ég féllist á þá röksemd að þetta væri þjóðareign, sem ég hef aldrei gert, gæti ég í það minnsta ekki farið þessa leið. Hvað á að segja við íbúana í Hveragerði? Eru þeir ekki hluti af íslenskri þjóð? Er ekki fólkið sem býr á Selfossi hluti af íslenskri þjóð? Af hverju eiga þau sveitarfélög ekkert að fá í sinn hlut ef þetta er þjóðareign? Það er annað, ef menn líta öðruvísi á þetta og segja: Hér er ríkiseign og ríkið ætlar sér að úthluta þessu með ákveðnum hætti. Þá skyldi maður skilja það. Þess vegna væri miklu heiðarlegra að tala um ríkiseign af því að menn eru í raun og veru að meina ríkiseign. Það er það sem verið er að ræða hér. Það er ekki og hefur aldrei staðið til að (Forseti hringir.) gera þetta að þjóðareign, enda hvernig mætti það vera? Það stendur ekki steinn yfir steini í því hugtaki.