141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[20:13]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ekki fækkaði nú spurningunum. Fyrst örstutt varðandi markaðsverðið. Ég er ekki þeirrar skoðunar að setja eigi allan fisk á markað. Það er efni í langa umræðu. (Gripið fram í.) Ég hef oft rætt þá skoðun hér. (Gripið fram í: Markaðsverð.) Þar fylgir oft sú krafa að öllum þeim fiski sem kemur að landi verði landað á markað. Margir af þeim aðilum sem nefndir voru — það er eitt. Þá kemur líka spurningin: Hvað er markaðsverð? Ég held að það sé mjög óvarlegt að taka þann hluta sem núna er á markaði og segja að það endurspegli markaðsverðið. Ef menn ætla sér að hafa markaðsverð fylgir það raunverulega að allur fiskur þarf á markað því að mikil hætta er á því að það verð myndist á mjög takmörkuðum markaði sem sé ekki eðlilegt markaðsverð. Það þekkja allir sem eru markaðssinnar.

Varðandi Vestmannaeyjar sem hér voru nefndar þá er tilgangurinn með þeim lögum sem sett voru á sínum tíma einmitt að gera sveitarfélögunum betur kleift að grípa inn í til að koma í veg fyrir snögga og hraða byggðaþróun. Mig minnir að það hafi verið töluvert rætt í aðdraganda kosninganna 2003 og leiddi til laga sem voru sett í framhaldinu. Tilgangurinn með lögunum var sá að mynda þann möguleika. Hvort um var að ræða hlutafélag í Vestmannaeyjum sem var farið áður en skipin fóru eða að skipin hafi verið farin á undan hlutafélögunum, það þekki ég ekki nákvæmlega. En ég vil segja þetta: Tilgangurinn í mínum huga var alveg ljós. Ef tilganginum verður ekki náð er sjálfsagt að endurskoða þau lög, það er algerlega sjálfsagt.

Hvað varðar peninga út úr greininni þá byggir auðlegð þjóða á því að þau nái árangri í ákveðnum atvinnugreinum, í nýtingu auðlinda. Síðan geta fjármunir farið úr þeirri grein í aðra til að byggja þær upp. Það væri alveg galið ef engir fjármunir mættu fara út úr sjávarútvegi á Íslandi. Ættum við að hafa það sama um landbúnað og aðrar atvinnugreinar? Ættum við að hafa allar atvinnugreinar þannig að alls staðar þar sem myndast hagnaður í einhverri atvinnugrein (Forseti hringir.) verði hann að fara til endurfjárfestingar í sömu atvinnugrein? Það sér það hver maður hvar það mundi enda. (Gripið fram í.) Auðlegð þjóða byggir einmitt á því að það sé nægt til til að endurfjárfesta í viðkomandi grein og síðan getur það sem umfram er streymt annað.