141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

störf þingsins.

[15:06]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það hefur færst mjög í vöxt nú hin síðari ár að þingmenn fái ekki svör við fyrirspurnum sínum frá ráðherrum. Það dregst fram úr hófi að svara skriflegum fyrirspurnum þrátt fyrir þann tímaramma sem gildir varðandi svör sem ráðherrar verða að gefa. Þetta er farið að há þinginu, þessi upplýsingaskylda framkvæmdarvaldsins. Þingið getur tæpast sinnt lögboðnu eftirlitshlutverki sínu lengur.

Það er til dæmis til vansa að allt síðasta þing var ég með sérstaka umræðubeiðni til hæstv. utanríkisráðherra varðandi þróunarhjálp. Ráðherrann sinnti því í engu og gaf ekki kost á sér í slíka umræðu. Frá 14. janúar hefur legið frammi beiðni frá mér til hæstv. fjármálaráðherra varðandi kjarasamninga heilbrigðisstarfsmanna. Þeirri beiðni var ekki sinnt heldur þrátt fyrir að málið væri brýnt og fjölmennar kvennastéttir tengdust því. En nú veit alþjóð hvernig málin hafa farið. Nú er búið að semja við hjúkrunarfræðinga og þess vegna liggur þessi umræða sem dauð eftir daginn í dag.

Þetta er mjög ámælisvert og ég vil hvetja hæstv. forseta til að taka á þessu máli í þinginu. Skýrt er kveðið á um það í 49. gr. þingskapa að Alþingi, þingnefndir og einstaka þingmenn hafa eftirlit með störfum framkvæmdarvaldsins. Eftirlitshlutverk Alþingis snýr að ráðherrum sem bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum.

Virðulegi forseti. Það má ekki lama eftirlitshlutverk Alþingis með þessum hætti. Þessu verður að breyta ef við þingmenn eigum að geta sinnt okkar lögbundna hlutverki. Ég skora á forseta að koma þessum málum í lag strax á þessu þingi.