141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

störf þingsins.

[15:35]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ef maður ætti að taka mark á og hlusta á þann málflutning sem hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Morgunblaðið flytja þessa dagana og vikurnar væri það tilefni til mikils þunglyndis. Þá mætti ætla að hér væri allt á vonarvöl í okkar annars ágæta samfélagi. Hér er fárast yfir því að allt sé að fara á verri veg, skattar hafi aukist, við séum hér með einhvers konar óðaverðbólgu, að ætla mætti samkvæmt umræðunni, hagvöxtur sé að fara niður o.s.frv.

Staðreyndin er sú að nýleg könnun hefur sýnt fram á að skattbyrði á Íslandi er nú léttari en víðast hvar, en það sem hefur áunnist á þessu kjörtímabili, á eftirhrunstímanum, er það að jöfnun lífskjara á grundvelli skattbreytinga hefur aukist sem er ekki lítið afrek miðað við það árferði sem ríkt hefur hér eftir hrun. Hér er verðbólga í kringum 4,5%, hún var 18% þegar þetta kjörtímabil hófst, og hagvöxtur 2,5%, meiri en víðast hvar í OECD-ríkjum þó að gert sé ráð fyrir því að hann muni minnka, eitthvað um 0,1 prósentustig, á næsta ári. Atvinnuleysi er minnkandi og minna en þekkist víðast hvar í Evrópu.

Það er deginum ljósara í nafni sanngirninnar að verið er að skila góðu verki við lok þessa kjörtímabils þó að vissulega bíði enn stór verkefni. Þessa þings bíður núna að ljúka til dæmis stjórnarskránni og margumtöluðu frumvarpi um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu sem er sjálfsagður hlutur að þingið afgreiði fljótt og vel. (Forseti hringir.) Það er að birta til í þjóðlífinu. Yfir því skulum við gleðjast og forsjónin (Forseti hringir.) forði okkur frá því að afhenda stjórnartaumana núna að loknum kosningum aftur þeim sem stjórnuðu hrunadansinum hér í 18 ár fyrir hrun. (Gripið fram í: Samfylkingin?) (Gripið fram í.)