141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

lengd þingfundar.

[15:46]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég kem ekki hingað aftur af því að mér hafi snúist hugur [Hlátur í þingsal.] heldur af því að ég vil ítreka að reynsla okkar af kvöldfundum í þinginu, jafnvel í hinum mikilvægustu málum, eins og Icesave, er sú að þegar kvölda tekur fækkar mjög stjórnarliðum í salnum og stjórnarandstæðingar sitja hér vanalega einir. (Gripið fram í: Icesave var málþóf.) Það er alveg hárrétt hjá þingmanninum, Icesave var málþóf. Það hefði verið betra að fleiri hefðu tekið þátt í þeirri umræðu, m.a. ýmsir stjórnarliðar. Í þessari umræðu skiptir miklu máli, ef það verður vilji þingsins að haldið verði áfram með kvöldfund, (Gripið fram í: Ætlarðu að vera með málþóf …?) að stjórnarliðar taki þátt í henni.

Síðan vil ég líka segja að mér finnst það auðvitað verra, og hér hljóta að vera fleiri hv. þingmenn sammála mér um það, að mikilvæg gögn í málinu eru enn að berast. (Forseti hringir.) Það er verið að klára að þýða álit Feneyjanefndarinnar. Hvers vegna í ósköpunum reynum við ekki að hafa það þannig að þetta sé komið inn í þingið (Forseti hringir.) og hægt sé að hafa það til grundvallar í áframhaldandi umræðu þannig að það liggi fyrir strax þegar aftur verður hafin ný umræða? (Forseti hringir.) Bíðum aðeins þangað til þýðingin verður komin inn í þinghúsið. (Gripið fram í.)