141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

lengd þingfundar.

[16:01]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er ekki rétt sem haldið hefur verið fram að ekki sé nægur tími til að ljúka bæði umræðu og vinnu við frumvarp til laga um stjórnarskipunarlög. Það er nægur tími til þess en til að hann sé nægur þarf að nýta allar lausar stundir sem eftir eru af þessu þingi sem þarf til að ræða þetta mál og vinna það. Þess vegna er einboðið að umræðan í dag standi fram eftir kvöldi og eins og þurfa þykir.

Meginástæðan fyrir því að við þurfum að ljúka málinu fyrir þinglok er sú að í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október greiddu 64,2% atkvæðisbærra manna sem gengu til atkvæða með því að frumvarp stjórnlagaráðs yrði lagt til grundvallar nýrri stjórnarskrá. Þess vegna á Alþingi engan annan kost en að ljúka málinu og koma því aftur til þjóðaratkvæðagreiðslu og næsta þings. Þetta eru straumhvörfin í málinu, þjóðaratkvæðagreiðslan í haust sem leið, og þess vegna ber okkur að klára málið og (Forseti hringir.) nota allar lausar stundir til að ljúka eðlilegri og málefnalegri umræðu um málið. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)