141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

fundur í atvinnuveganefnd um stjórn fiskveiða.

[16:13]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur að við hv. þm. Jón Gunnarsson og raunar líka hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson höfum gert kröfu til þess að mál séu unnin almennilega. Við höfum gert kröfu til þess að þessi mál séu send út til umsagnar til þeirra sem málið varða. Við höfum gert kröfu til þess að það séu kallaðir fyrir okkur sérfræðingar og þess að unnin séu sérstök sérfræðiálit. Það er til fyrirmyndar.

Það sem eru hins vegar ekki fastir liðir eins og venjulega er að í starfi atvinnuveganefndar hefur hingað til verið orðið við þessu. Hingað til hefur forusta nefndarinnar ævinlega orðið við þessum sjálfsögðu óskum okkar. Þess vegna hafa menn reynt að vinna slík mál, sjávarútvegsmálin, sæmilega faglega enda hafa þessi mál frá ríkisstjórninni aldrei verið afgreidd út úr nefndinni.

Nú er hins vegar greinilega ætlunin að efna til nýrra vinnubragða. Nú á að koma í veg fyrir að sérfræðingar geti unnið þessi álit. Það er sagt hérna af miklum (Forseti hringir.) höfðingsskap að þeir megi kannski koma fyrir nefndina, tala við okkur, skrifa okkur kannski eitt lettersbréf, (Forseti hringir.) en við erum að fara fram á að unnið sé alvörusérfræðiálit og við mótmælum því að það eigi að vinna þessi mál á handahlaupum eins og ætlunin er greinilega að gera.