141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

fundur í atvinnuveganefnd um stjórn fiskveiða.

[16:21]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Vinnubrögð í atvinnuveganefnd í morgun voru algerlega eðlileg. Það kemur því miður svo grímulaust fram núna hjá sumum nefndarmönnum að þeir ætla að stöðva þetta mál vegna þess að þeir eru efnislega ekki sammála því. Í vor tókst þeim að koma í veg fyrir að málið kæmist (Gripið fram í.) inn í sali Alþingis og núna ganga þeir algjörlega grímulaust fram til að eyðileggja það. Sem lýðræðissinna finnst mér ekki eðlilegt að láta menn eyðileggja mál með því að finna til alls konar form til þess að beina því í, eingöngu til þess að koma í veg fyrir það að það fái að koma hér inn í sali Alþingis, fái efnislega umræðu og síðan lýðræðislega niðurstöðu í atkvæðagreiðslu, eins og það á að gera eftir þá miklu og löngu meðferð sem málið hefur fengið. (Forseti hringir.) Það fær að sjálfsögðu lýðræðislega meðferð í nefndinni og við tökum alla þá inn á fund nefndarinnar sem óskað verður eftir og höldum fundi að kvöldi til ef því er að skipta.