141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

fundur í atvinnuveganefnd um stjórn fiskveiða.

[16:26]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég er hálfundrandi. Ég tók þátt í umræðunni um það mál sem hér er til umræðu í þinginu í gær. Ég gat ekki séð að hér væri verið að leggja fram nákvæmlega sama mál og á síðasta þingi, á því eru nokkrar breytingar. Af þeirri ástæðu er eðlilegt að fá þá aðila sem veittu faglega ráðgjöf um fyrra málið til þess að meta afleiðingarnar af því seinna. Ég held að menn hefðu átt að læra af umræðunni sem fór fram á síðasta þingi að hlusta á sérfræðinga, vegna þess að athugasemdirnar voru hvorki fáar né smávægilegar. Mig langar að minna á að ein helsta ályktun þingmannanefndarinnar sem hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir sat í varðandi Alþingi var að Alþingi ætti að taka starfshætti sína til endurskoðunar og auka fagmennsku við undirbúning löggjafar. Hvar passar þessi ályktun, sem hv. þingmaður stóð að, skrifaði og samþykkti, við þessi vinnubrögð? Ég spyr: (Forseti hringir.) Eru þetta hin nýju, breyttu og bættu vinnubrögð? (Gripið fram í.)