141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

nauðasamningar þrotabúa föllnu bankanna og útgreiðslur gjaldeyris.

[16:46]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Það er ljóst að það vandamál sem við stöndum frammi fyrir vegna kröfu erlendra aðila á þrotabúin, vegna hinnar svokölluðu snjóhengju, sem eru leifar af jöklabréfunum, er mikið. Talið er að þessi upphæð sé í kringum 1.200 milljarðar og til þess að það komist úr landi þarf landið að geta framleitt gjaldeyri sem því nemur. Samkvæmt nýju svari frá Seðlabankanum er áætlað að landið framleiði í kringum 70 milljarða á ári, þannig að það mun taka allt of langan tíma að hleypa þessum fjármunum úr landi og ljóst að gjaldeyrishöft þyrftu að vera hér í mjög langan tíma, jafnvel áratugi, ef fara ætti þá leið.

Það er því mikilvægt að hafnar verði samningaviðræður við kröfuhafa um hvernig hægt er að leysa þetta mál. Það er mjög brýnt, eins og hæstv. fjármálaráðherra bendir á, að pólitísk samstaða ríki um hvaða leiðir eigi að fara. Góð pólitísk samstaða hefur ríkt undanfarið ár eða svo en ekki var varpað ljósi á stærð vandans fyrr en síðasta sumar og síðasta haust. Menn hafa verið að velta upp ýmsum lausnum, en það er brýnt, nákvæmlega eins og hæstv. fjármálaráðherra sagði, að við séum ekki að brjóta þjóðréttarlegar skuldbindingar með þeim lausnum. Það er eftir sem áður ljóst að þær lausnir verða mjög drastískar og að það er brýnt að við stöndum öll saman að þeim.