141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

nauðasamningar þrotabúa föllnu bankanna og útgreiðslur gjaldeyris.

[16:51]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Tvær mínútur eru ansi stuttur tími þegar verið er að ræða þetta stórt mál. Hægt er að skilgreina vandann í þeim þremur atriðum sem ég talaði um hér, þ.e. varðandi leiðir til að vinna okkur út úr þessum vanda: í fyrsta lagi afskrift skulda, í öðru lagi endurfjármögnun og í þriðja lagi að framleiða meira. Í glímunni við þennan vanda þurfum við annars vegar að hafa prikið og hins vegar gulrótina þannig að það sé alveg skýrt að við séum að vinna saman í þessu. Allir þeir sem koma að því að aflétta gjaldeyrishöftunum verða að gera sér grein fyrir því að þetta er sameiginlegt hagsmunamál okkar allra; kröfuhafa, krónueigenda og Íslendinga. Þá getur verið gott að hafa gulrótina, en það getur líka verið nauðsynlegt að hafa prikið.

Einn möguleiki er útgönguskattur á útstreymi aflandskróna og Seðlabankinn hefur loksins tekið undir að það þurfi að vera hluti af lausninni. Einnig hefur verið nefnt að nauðsynlegt geti verið að krefjast þess að aðeins verði greitt út úr þrotabúunum í krónum, þá kemur aftur inn þessi útgönguskattur á útstreymi króna sem eru þá að fara þar í gegn.

Það er verið að vinna að fjárfestingarleiðinni. Mjög mikilvægt er að hafa í huga að í dag og frá því eftir hrun hefur mjög lítill hluti af þeim krónum sem hafa viljað fara út úr kerfinu verið vaxtaberandi. Með fjárfestingarleiðinni erum við að auka það hlutfall krónueigna sem eru vaxtaberandi þannig að það geti skapað þrýsting á krónuna, að þeir sem eiga þessar vaxtaberandi eignir vilji ná vöxtunum sínum út; og síðan jafnvel líka arðgreiðslum.

Hv. þm. Lilja Mósesdóttir hefur einnig nefnt þá hugmynd — og ég held að það sé alla vega eitthvað sem við verðum að skoða — að taka upp aðra mynt. Það var það sem Þjóðverjar neyddust til að gera í framhaldi af seinni heimsstyrjöldinni. Þegar maður fer að veifa því er maður svo sannarlega kominn með extra stórt prik.