141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[17:21]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir að taka þátt í umræðunni með okkur um þetta mikilvæga mál. Hann hefur í löngu máli gefið yfirgripsmikið yfirlit um efasemdir sínar um málið en ég hélt að við ætluðum að vera í efnislegri umræðu. En sú gagnrýni sem sett hefur verið fram, þótt hún hafi verið studd með nokkrum dæmum, hefur verið mest um formið.

Þess vegna langar mig að spyrja: Hvað finnst þingmanninum — ég veit að tvær mínútur eru ekki mikill tími en ég vil brýna þingmanninn til að taka þetta upp í þriðju ræðu sinni — um efni frumvarpsins og þær 113 greinar sem þar eru, sumar nýmæli? Ég er forvitin um það, ég vil því hvetja þingmanninn til þess að ræða það.