141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[17:22]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er önnur ræða mín um málið. Í fyrri ræðu minni fór ég yfir ýmislegt, eins og ég vék aðeins að áðan en vildi samt ekki taka langan tíma í að rifja það upp, en ég nefndi það að ég hefði í fyrri ræðu minni farið nokkuð rækilega yfir ýmsa þætti sem lytu að vinnumarkaði, ýmsa þætti sem komu inn á borð okkar sem sitjum í velferðarnefnd Alþingis og ýmsar efnisgreinar um réttindi fólks o.s.frv. sem við fjölluðum rækilega um. Afstaða mín í þeim efnum kemur fram í nefndaráliti sem ég hef skrifað. Ég hef líka skrifað nefndarálit sem lýtur að ýmsum þáttum sem atvinnuveganefnd tók til meðhöndlunar, svo sem eins og auðlindaákvæðið. Ég ætlaði mér satt að segja og taldi þegar ég fór í ræðustól áðan að það ætti að vera meginefni ræðu minnar, þ.e. að fjalla um auðlindaákvæðið, en það bíður þá þriðju ræðunnar og kannski fjórðu og þeirrar fimmtu því að það er gríðarlega efnismikið mál.

Ég tel hins vegar að ég hafi fjallað efnislega um málið. Það er ekki alveg hægt að aðskilja og segja: Annað er efni máls og hitt er formið. Það sem ég gagnrýndi hérna er grundvallaratriði, algjört grundvallaratriði, efnislegt grundvallaratriði, þ.e. með hvaða hætti menn prófa stjórnarskrána. Var ekki sagt að hún hefði átt að fara í einhvers konar þolpróf, var það ekki það sem talað var um, eða álagspróf? Ég er að segja að álagsprófið hlýtur að ganga út á það að taka einstakar efnisgreinar frumvarpsins og meta hvaða afleiðingar þær hafa, t.d. í annarri löggjöf.

Ég vakti athygli á máli sem mér finnst liggja allt of mikið í þagnargildi, þ.e. spurningin um vinnumarkaðinn. Hv. þingmaður hlýtur að vera mér sammála um að það er alla vega stórt spursmál. Menn getur greint á um hvort við viljum hafa vinnumarkaðinn svona. Ég nefndi líka áðan upplýsingalöggjöf og slíka hluti, sem sagt hefur verið að þurfi að endurskoða ef þetta verður gildandi stjórnarskrá og (Forseti hringir.) ég velti fyrir mér hvort það væri til góðs eða ills. Þeirri spurningu hefur ekki verið svarað og ég hef svo sem ekki endanlegt svar við henni.