141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[17:35]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við skulum rifja eitt upp. Þegar breytingartillögur meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar komu fram, og þær voru gagnrýndar harðlega, þá var sagt: Við erum ekki búin að segja okkar síðasta orð. Okkar hugsun er sú að vinna þetta svona meðfram, halda fundi á meðan á umræðunni stendur, þróa vinnuna einhvern veginn áfram, það eru nútímaleg vinnubrögð. Það eru stöðnuð vinnubrögð sem Alþingi hefur tíðkað, þ.e. skila inn fullbúnu plaggi inn í 2. umr., láta umræðuna fara fram og svo taki það breytingum eftir atvikum ef umræðan hefur kallað á það.

Nú var það sagt af formanni nefndarinnar að þau vinnubrögð Alþingis ættu ekkert við, við ættum að hafa þetta svona eins og núna er gert, þ.e. hafa málið lifandi, það gæti stöðugt verið að taka breytingum. En þá er vandinn sá að þegar við erum búin að kalla eftir áliti einhvers aðila, hvort sem það er Feneyjanefndar eða einhverra sérfræðinga eða almennings, þá getur vel verið að hlutirnir breytist og það hafi síðan einhver önnur áhrif sem við þurfum þá að meta. Það er stóra málið í þessu sem við þurfum að gera okkur grein fyrir.

Þegar ég vakti athygli á þessu kom til okkar viðbótarskjal frá Samtökum atvinnulífsins, sem ég veit að var meðal annars rætt um við Alþýðusamband Íslands, þar sem niðurstaðan var sú, þeir töldu að það mætti skilja þannig, að verið væri að flytja kjarasamningsréttinn frá stéttarfélögum og gera hann einstaklingsbundinn, sem ekki hefði verið tilgangur stjórnlagaráðsins enda þvert á allt fyrirkomulag hér á landi og annars staðar á Norðurlöndunum. Auðvitað brá mönnum nokkuð í brún við þau tíðindi. Ég vakti athygli á þessu við afgreiðslu málsins í velferðarnefnd og niðurstaðan varð sú að þeir skrifuðu einhvern texta í nefndarálit sitt. Það breyttist hins vegar, því miður, ekki í frumvarpstextanum þannig að málið er jafnóljóst eftir sem áður. Það er alla vega ágreiningur um textann.

Mér finnst það vera mikið áhyggjuefni þegar við sjáum að svona mál fór fram hjá jafnvel mestu sérfræðingum okkar. Það er ekki fyrr en á lokametrunum við umfjöllun nefndarinnar að sérfræðingarnir sjá að þarna kunni að vera hætta á ferðum. Við sjáum á þessu hvað þetta er óskaplega vandasamt mál.