141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:12]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum ræðuna. Hann nefndi að í upphaflegum tillögum stjórnlagaráðs hefði verið talað um að gera landið að einu kjördæmi. Það var einn möguleiki, en hins vegar var það alls ekki eini möguleikinn í þeim tillögum. Í breytingartillögu meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar kemur hins vegar skýrt fram að heimilt sé að skipta landinu upp í kjördæmi og þar er ekki verið að tala um eitt kjördæmi. Það er heldur ekki verið að tala um einmenningskjördæmi vegna þess að hlutfallsleg skipting kemur í veg fyrir það. Sett eru niður meginákvæði um að atkvæði í landinu eigi að vega jafnt eða sem jafnast og bent er á leiðbeiningar frá Feneyjanefndinni, sem ekki eru í sambandi við það álit sem við fengum frá þeim í vikunni, um að óeðlilegt sé að meira en 15% munur sé á atkvæðum fólks í landinu. Það er tillagan sem er gerð.