141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:20]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég stend við það að eins og ég skynja þetta ákvæði þá er yfirlýst merking þess eftirfarandi: Við ætlum að kjósa til Alþingis, en það á bara eftir að forma reglurnar, það hefur ekki verið ákveðið með hvaða hætti við ætlum að gera það. Ég fagna því sérstaklega ef skilningur hv. þm. Lúðvíks Geirssonar er á þann veg að það þurfi 2/3 atkvæða í þessum sal til þess að breyta kosningalöggjöfinni í landinu. Það er í mínum huga algjört grundvallaratriði. Í raun ætti breyting á stjórnarskránni að vera háð sömu skilmálum, að full samstaða væri því sem næst um allar breytingar sem að þessum efnum lúta.

Ég heyri það einnig að hv. þm. Lúðvík Geirsson og hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir eru ekki jafnstaðföst í því að halda því til streitu að landið eigi að vera eitt kjördæmi og ég fagna því sérstaklega, þó ekki væri nema því einu — og er ég þó annars maður mikillar gleði á þessum degi.