141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:28]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég geri ráð fyrir því að það hafi verið tilviljun að hann nefndi þessa tvo hv. þingmenn skoðun sinni til staðfestingar. Ég vek líka athygli hv. þm. Loga Más Einarssonar á því að þegar hann rekur uppruna okkar beini ég þeim tilmælum til hans að byrja á Dalvík, alla vega í því sem snýr að mér. Ég er mjög stoltur af þeim uppruna mínum og ég kæri mig ekki um að honum sé gleymt.

Ég er þeirrar skoðunar að þetta snúist ekkert endilega um það hvaðan menn koma heldur hvert menn eru að fara og hvaða áhrif tiltekinn hópur fólks kann og vill hafa á þau störf sem unnin eru hér inni. Ég er þeirrar trúar og þeirrar sannfæringar að sú tillaga sem hér liggur fyrir tempri og dragi úr möguleikum tiltölulega stórra hópa til að hafa áhrif eða eiga fulltrúa sína hér á þessari samkomu.