141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:42]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég er með tvær spurningar. Í fyrsta lagi: Er hv. þingmaður að leggja til að málið verði lagt til hliðar að öðru leyti en þeim atriðum sem lögð voru sérstaklega fyrir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslunni sem fram fór hér í haust? Er þetta tillaga um það?

Ég var hrifin af ýmsu í ræðu þingmannsins, meðal annars því að hann taldi heppilegt að reynt væri að ná sátt um stjórnarskrána. Þannig hefur þetta verið gert hingað til og núgildandi 79. gr. stjórnarskrárinnar um það hvernig við breytum stjórnarskrá er mikilvægt innlegg í að tryggja að svo sé. Þess vegna var ég hrifin af því þegar hv. þingmaður sagði að gott væri að annað þing færi síðan yfir frumvarpið og að það þing þyrfti að samþykkja það.

Síðan sneri hv. þingmaður við blaðinu og taldi fyllilega í lagi að eftir að breytingarnar færu í gegn væri auðvelt að breyta stjórnarskránni. Ég er algjörlega ósammála því að nú eigi að lögfesta ákvæði, sem er í 113. gr. þessa frumvarps, sem felur í sér að fallið verði frá þessum öryggisventli.

Ég áttaði mig ekki á því í ræðu hv. þingmanns þar sem hann sló úr og í hvort hann væri ánægður með slíka breytingu eða ekki. Ef þetta væri gildandi ákvæði stjórnarskrárinnar væri hann þá óánægður, en ánægður með það til framtíðar? Það væri ágætt að fá þetta skýrt frá hv. þingmanni.