141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:46]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ósammála hv. þingmanni. Ég er nýkomin úr prófkjöri þar sem ég ferðaðist vítt og breitt um hið víðfeðma Suðurkjördæmi. Ég hitti ekki nokkurn einasta mann sem talaði um það, óskaði eftir því eða taldi það mikilvægt að breyta stjórnarskránni. Ekki nokkurn einasta mann.

Ég var að reyna að ræða um með hvaða hætti við breytum stjórnarskrá. Fram kemur í umsögnum frá ýmsum aðilum að tilgangur þess að hafa ákvæði um breytingar á stjórnarskrá þannig að breytingarnar séu stífar og örðugara sé að breyta stjórnarskrá en almennum lögum eru til þess gerð að koma í veg fyrir að stjórnarskrárbreytingar stjórnist af stemningu í samfélaginu frá degi til dags. Þetta er gert til þess að naumur þingmeirihluti á hverjum tíma geti ekki komið í gegn viðamiklum breytingum á stjórnarskránni með lítilli kosningaþátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslu. Sá er tilgangurinn. Það er viðurkennt víðast hvar og okkar breytingarákvæði í núgildandi stjórnarskrá er mjög svo skylt þeim ákvæðum sem í gildi eru í nágrannalöndum okkar.

Það er þetta sjónarmið sem mér finnst gott og eitt það besta í okkar stjórnarskrá, að tvö þing þurfi til að samþykkja breytingar sem er gert til þess að breið samstaða skapist. Ég held að það sé öllum fyrir bestu, við sjáum það helst á þeirri umræðu og þeim hörðu átökum sem eiga sér stað um þetta mál, að það er ekkert vit í því að reyna að þröngva umbyltingu á stjórnarskrá okkar í gegn í mikilli andstöðu við stóran hluta þingsins og stóran hluta þjóðarinnar.