141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:48]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér greinir mig og hv. þingmann verulega á. Það er út af fyrir sig rétt að ef lítil þátttaka væri í þjóðaratkvæðagreiðslu væri það kannski ekki fullnægjandi umbúnaður um það að ljúka breytingum á stjórnarskrá. Ég tel algerlega fráleitt að hægt sé að breyta stjórnarskrá án þess að þjóðin fái að segja sitt álit um það með beinum hætti, eins og núverandi skipan gerir ráð fyrir. Ég tel að þjóðin sé einfaldlega fullfær um það. Það má auðvitað setja einhverjar kröfur um þátttöku í slíkri þjóðaratkvæðagreiðslu, en ég held að miklu betra sé að þjóðin þurfi að staðfesta nýja stjórnarskrá þegar þingið hefur samþykkt hana, frekar heldur en þingið eigi aftur að staðfesta. (Gripið fram í: Þingið?) Ég held að það sé einfaldlega miklu betra fyrirkomulag.

Hvað varðar samræður hv. þingmanns við fólk hljótum við að ræða við mjög ólíka hópa, ég og hv. þingmaður, vegna þess að mitt mat er að mjög rík krafa sé hjá tugþúsundum Íslendinga og meiri hluta þjóðarinnar að þjóðareign á auðlindum sé tryggð í stjórnarskrá. Andstaða Sjálfstæðisflokksins við það hefur auðvitað skapað mikið ósætti um gildandi stjórnarskrá, hún er alveg ómöguleg af því að hún tryggir ekki að við og börnin okkar og barnabörnin eigum auðlindirnar í landinu. Þess vegna er engin sátt um gildandi stjórnarskrá. Það eru sömuleiðis tugþúsundir Íslendinga sem telja mjög mikilvægt að þeir geti knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslur með undirskriftasöfnunum án þess að eiga það undir forseta Íslands og að þeir eigi að eiga þann stjórnarskrárvarða rétt. Það er mjög mikið áhugaefni tugþúsunda Íslendinga.

Það að menn geti kosið fólk á þing en ekki bara flokka er líka mikið áhugaefni tugþúsunda Íslendinga. Að hér séu þau lágmarksmannréttindi í landinu að hver maður hafi eitt atkvæði er líka gríðarlega mikið áhugamál tugþúsunda Íslendinga. Ég vísa því algerlega á bug að þetta séu einhver efnisatriði sem enginn hafi áhuga á.