141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:58]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eða kannski fjörutíu og eitthvað. Ég skal út af fyrir sig taka undir með hv. þingmanni lokaorð hans, þau endurspegla hóflegt raunsæi í málinu, að 63:0 náist ekki á bak við frumvarp að nýrri stjórnarskrá en fjörutíu og eitthvað þingmenn væri gott, ef það tækist. Mér þykir verra að heyra umsagnir hans um lýðræðið vegna þess að, eins og hann nefndi réttilega, þjóðfundurinn var mjög lýðræðisleg aðferð. Síðan var skipuð nefnd valinkunnra manna til að undirbúa umfjöllunina. Síðan var þetta kjör og stjórnlagaráðið starfaði fyrir opnum tjöldum. Það náði breiðri samstöðu sem allir þar stóðu að. Eftir það var þjóðinni gefinn kostur á að lýsa sinni afstöðu í allsherjaratkvæðagreiðslu. Hvað er lýðræðislegra heldur en þjóðaratkvæðagreiðsla einnar þjóðar um grundvallaratriði í stjórnskipan? Mér finnst þingmaðurinn gleyma þeim þætti fullauðveldlega.

Mér sýnist á þeirri vinnu sem hefur verið unnin í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að þar hafi ekkert staðið á nefndarmönnum að bregðast við athugasemdum og umsögnum, gera breytingar á málinu og vera opin gagnvart umræðum um frekari breytingar eftir því sem sjónarmið hafa komið fram. Ég treysti því að þannig verði áfram unnið með málið hér í umræðunni í þingsalnum og síðan áfram inni í nefndinni. Einnig að smátt og smátt á næstu vikum megi fjölga þeim sem sjá meira jákvætt en neikvætt við það að frumvarpið verði að lögum og leysi af hólmi þá stjórnarskrá sem er svo mikið ósætti um. Hún tryggir ekki sameiginlegt áhugamál okkar hv. þingmanns, þjóðareign á auðlindum, almennan rétt fólks til þjóðaratkvæðagreiðslu né fjölmörg önnur atriði.