141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[20:20]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og ég sagði áðan er ég fylgjandi því að við notum þjóðaratkvæðagreiðslur í meira mæli en gert hefur verið. Það þarf hins vegar að leggja þær þannig fram að skýrt sé um hvað verið er að kjósa. Að spurningarnar séu þannig að svörin verði skýr, að þeir sem eiga síðan að vinna úr þjóðaratkvæðagreiðslunni viti hvað fólk er að segja og að þeir sem greiða atkvæði viti að skilaboðin þeirra komist skýrt til skila. Þannig tel ég að við eigum að nota þjóðaratkvæðagreiðslur og ef okkur lukkast að halda slíkar þjóðaratkvæðagreiðslur, vegna þess að sumir hafa haft efasemdir um að kjósendur muni nenna að mæta endalaust á kjörstað eins og Svisslendingarnir, og náum að gera það þannig að spurningarnar séu skýrar og tilgangurinn ljós held ég að það verði bara mjög gott fyrirkomulag. Ég held að við Íslendingar munum verða enn hamingjusamari og glaðari þjóð eftir slíkar þjóðaratkvæðagreiðslur.