141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[20:52]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna sem á köflum var ansi dæmalaus miðað við þann sannleik sem felst í öllu þessu máli. Mér fannst athyglisvert þegar þingmaðurinn las upp úr stjórnarskránni varðandi mannréttindakaflann og efaðist um þær greinar sem felast í mannréttindakafla núgildandi stjórnarskrár. Þau ákvæði komu inn í stjórnarskrána árið 1995 og eru því að verða 20 ár síðan þau voru sett inn í hana, og komin er alveg afbragðsgóð dómaframkvæmd á mannréttindakafla stjórnarskrárinnar. Varla er það mál lengur til sem hægt er að fara með fyrir íslenskan rétt sem hefur ekki tekið á þeim spurningum sem hafa vaknað eftir að þetta var sett inn í stjórnarskrána. Því voru vangaveltur þingmannsins alveg dæmalausar í ljósi þessa.

Mig langar til að spyrja þingmanninn: Hann fór yfir það í ræðu sinni að framsóknarmenn hafi gagnrýnt það ferli sem þessum málum hefur verið búið, kostar nú þegar tæpar 1.500 milljónir á þeim fjórum árum í valdatíma núverandi ríkisstjórnar. Hvað finnst þingmanninum um það að við séum að ræða málið í 2. umr. þegar álit Feneyjanefndar er ekki einu sinni komið á dagskrá stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar? Boðað hefur verið að það verði tekið fyrir í nefndinni í næstu viku þegar íslensk þýðing liggur fyrir. Við erum í raun að ræða annað plagg en það sem Feneyjanefndin fékk því að hér var hann að vísa í breytingartillögur sem þegar hafa komið fram frá meiri hluta nefndarinnar sem eru raunverulega ekki til grundvallar í áliti Feneyjanefndarinnar.

Hefði ekki verið rétt að bíða með þessa umræðu þar til komið var álit frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd varðandi álitið frá Feneyjanefndinni?