141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[20:59]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna sem var að mörgu leyti ansi góð á köflum. Ég var ekki sammála öllu því sem kom fram í máli hv. þingmanns, alls ekki, en mig langar að bregðast við nokkrum atriðum og spyrja hv. þingmann.

Þar sem hann kom inn á þá vinnu sem átti sér stað í fagnefndum þingsins, sem hann sagði að væri fordæmalaus, þá get ég upplýst hv. þingmann um að staðið var þannig að því í hv. fjárlaganefnd að meiri hlutinn tilkynnti minni hlutanum það á fundi að ekki stæði til að kalla fyrir gesti til að ræða þær greinar sem þar voru inni. Hins vegar var vinnan með öðrum hætti í öðrum nefndum. Og það er ofboðslega dapurlegt að eftir þá vönduðu meðferð sem hv. þingmaður vísaði í skuli þetta sitja eftir í umræðunni gagnvart þessari einu fagnefnd.

Mig langar að spyrja hv. þingmann vegna ummæla hans undir liðnum störf þingsins í dag og í ljósi stöðu málsins í þinginu, þ.e. vegna þess tíma sem er eftir og vegna þeirra athugasemda sem hafa verið gerðar við frumvarpið af bæði leikum og lærðum eins og sagt er, hvort hv. þingmaður hræðist það ekki dálítið ef við höldum þeirri stefnu áfram í málinu að sú vinna sem farið hefur fram nýtist ekki, sú mikla vinna sem hv. þingmaður kom inn á áðan — og ég ætla ekki að agnúast út í það hvort ég hefði viljað hafa hana með öðrum hætti eða ekki, það skiptir ekki öllu máli. Hvort hv. þingmaður hafi ekki áhyggjur af því að ef við höldum áfram þeirri stefnu sem er í málinu þá muni sú mikla vinna ekki nýtast eins vel og ef við mundum kannski sníða okkur, ef ég má orða það svo, stakk eftir vexti. Tækjum þá ákveðna hluta, fjölluðum um þá, geymdum aðra inn á næsta kjörtímabil.