141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[21:01]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir fyrirspurnina. Hún er mikilvæg og málefnaleg og eðlilegt að spurt sé að þessu í ljósi þess stutta tíma sem er fram að áætluðum þinglokum.

Ég get tekið undir það, ég tel að það séu eðlileg viðbrögð við ábendingum Feneyjanefndarinnar að taka sérstaklega þann meginkafla í áliti nefndarinnar, það meginverkefni sem henni var falið að fara sérstaklega yfir, sem er stjórnskipunin og þetta samspil á milli mismunandi greina ríkisvaldsins, forsetans, þingsins og framkvæmdarvaldsins og rýna það betur. Og þá með það fyrir augum einmitt að nýta þá vinnu sem unnin hefur verið og freista þess að ná samkomulagi í þinginu um það að þessir mikilvægu kaflar stjórnskipunarinnar séu settir í tiltekinn farveg með það fyrir augum að hægt verði að afgreiða það á næsta þingi.

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar, hafandi lesið álit Feneyjanefndarinnar, að önnur atriði séu ekki það viðurhlutamikil, aðrar athugasemdir, að ekki sé tími til að bregðast við þeim, reyndar hefur þegar verið brugðist við nokkrum þeirra í þeirri vinnu sem átt hefur sér stað í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. En auðvitað er það mikilvægt markmið í vinnu sem þessari að freista þess að ná sem mestri sátt um breytingar á stjórnarskránni og í þeim anda hef ég kynnt þetta sjónarmið.