141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[21:57]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég treysti mér ekki til að kveða upp úr um það hvort þetta sé, eins og hv. þingmaður bendir á, brot á einhverjum reglum. En ég vil þó leiðrétta það sem ég sagði við hv. þingmann því að það er auðvitað rétt sem hv. þingmaður benti mér á, þegar ég mismælti mig hér áðan, að þetta er rökræða. Ég fellst að sjálfsögðu á það.

Ég held hins vegar að af því sem ég hef fylgst með af þessum umræðum, eins og þær hafa hingað til gengið fyrir sig, hafi þær verið efnislegar og málefnalegar. Hér hafa hv. stjórnarliðar tekið þátt í umræðum og það er fínt. Reyndar sjást ekki þeir sem voru digurbarkalegastir í dag, sem vildu funda á kvöldin, en hér eru hv. þingmenn sem stýra stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og margir aðrir. Því ber auðvitað að fagna. En auðvitað þurfum við að hafa rökræður með þeim hætti að bæði stjórnarliðar og stjórnarandstaðan taki þátt í umræðunum.