141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[22:07]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við séum eiginlega stödd á sama stað í umræðunni, ég og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir. Ég held hins vegar að við þurfum að taka heiðarlega umræðu um jafnan aðgang fólks, alls staðar. Ég fór margoft yfir það í umræðunni um fjárlögin þegar í tæplega tvö þúsund manna byggðarlagi var verið að loka heilsugæslustöðinni um helgar hver búsetuskilyrði fólks á viðkomandi stað væru. Við þurfum að fara í umræður um þetta. Við getum ekki bara stokkið til og sagt að við viljum jafna þetta en svo er misskipting annars staðar. Þess vegna þurfum við að taka heiðarlega rökræðu um það hvernig við sjáum þessar breytingar miðað við núverandi kjördæmaskipan. Viljum við breyta henni með einhverjum hætti, fjölga eða fækka, eða hvernig sem það væri, eða hafa bara landið eitt kjördæmi? Mikilvægt er að við tökum umræðuna alla leið en stöldrum ekki bara við í atkvæði 1:1 og klára svo bara hitt seinna.