141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[22:09]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er algerlega sammála hv. þingmanni um að við eigum að rökræða málin.

Ég staldraði við ákveðna þætti sem snúa að kosningalöggjöfinni og breytingum í kringum hana, hvort sem það er persónukjör, kjördæmabreytingin eða jöfnun atkvæðisréttar. Það er bara ein ákveðin grein af svo mörgum í frumvarpinu og auðvitað er mjög gott að rökræða um hlutina því að öðruvísi getur maður ekki tekið upplýsta ákvörðun eins og stundum er sagt. Það er mikilvægt að gera og það er hættulegast fyrir hvern sem er, alveg sama hver hann er, þegar maður telur sjálfum sér trú um að maður viti allt, kunni allt og geti allt best allra. Þá er maður fyrst í vandræðum. Ég hafði þann vana þegar ég var í sveitarstjórnarmálum og stýrði sveitarfélögum í mörg ár að ef ég fékk litla gagnrýni á það sem við vorum að gera leið mér alltaf mjög illa. Ég leitaði þá uppi sem höfðu mest gagnrýnt það málefni sem við vorum að fjalla um og það bjargaði okkur oft.