141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[22:12]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það getur vel verið að ég og hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir séum ekki alveg á sama máli í því hvernig við viljum hafa fyrirkomulagið í stjórnarskránni sem snýr að kosningalöggjöfinni. Ég er staddur þar eins og ég sagði að við eigum að hafa það fast rammað inn. Það er líka ákveðið sjónarmið að færa megi það frekar út í kosningalöggjöfina. Það er alveg sjónarmið sem manni ber skylda til að bera virðingu fyrir. En ég held hins vegar að áður en farið er í breytingar um jöfnun atkvæðisréttar þurfi að fara akkúrat í þá umræðu sem við erum sammála um að gera. Ég heyri að hv. þingmenn sem hafa komið hingað í andsvör við mig hafa einmitt tekið undir það að við þurfum að taka slíka umræðu, þ.e. hvort við gerum landið að einu kjördæmi eða hvort við gerum öðruvísi kjördæmabreytingu frá þeirri skipan sem er í dag. Þetta er umræða sem við þurfum að taka og ef við tökum ekki rökræðuna komumst við væntanlega ekki að skynsamlegri niðurstöðu. Það er því mikilvægt að hún fari fram.