141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

möguleg kaup lífeyrissjóðanna á Íslandsbanka.

[10:42]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ef sölutilboð kemur í bankana þurfum við fyrst og fremst að hugsa um að fara vandlega og vel yfir allt ferlið. Það skiptir máli hvernig staðið er að sölu bankanna. Það finnst mér númer eitt, tvö og þrjú að við skoðum, þ.e. hvernig eignarhaldinu á bönkunum verður háttað og hverjir fara með virkan eignarhlut í fjármálafyrirtækjum. Það er mikilvægt að hafa alla aðila með í þessum ráðum eins og Fjármálaeftirlitið. Vissulega hefði síðan Bankasýslan yfirumsjón með þessu máli.

Við höfum brennt okkur rækilega á því hvernig sölu bankanna var háttað þegar þeir voru seldir á sínum tíma, 2002 og 2003. Við viljum ekki brenna okkur aftur á því ferli sem þá gekk yfir varðandi sölu bankanna. Ég vona að við séum sammála um að við förum vandlega yfir ferlið. Ekkert tilboð hefur enn borist og það þarf auðvitað að skoða það. Væntanlega þarf þá málið að fara fyrir þingið samkvæmt lögum nema ef málið yrði þvingað fram í krafti hlutafjárlaga á grundvelli kröfu meirihlutaeigenda. Það er ýmislegt að skoða í þessu máli.

Hv. þingmaður hefur áhyggjur af því að ef lífeyrissjóðirnir mundu kaupa hlut í bönkunum og eignast verulegan hlut í þeim mundi þrengja svigrúm til að gera eitthvað fyrir skuldug heimili. Ég deili þeirri skoðun að lífeyrissjóðirnir hafa verið mjög tregir að því er varðar að taka þátt í því að leysa skuldavanda heimilanna, meðal annars stöndum við nú í stappi við þá og höfum gert að því er varðar lánsveðið og það er ekki komin nein niðurstaða í því máli. Við höfum gert það sem við höfum getað með samningum við bankana, með skattlagningu (Forseti hringir.) á bankana til að skapa svigrúm til að eiga fyrir og hjálpa okkur við að leiðrétta skuldir heimilanna. Ég vil þó ekki gefa mér fyrir fram að ef lífeyrissjóðirnir (Forseti hringir.) verða eigendur að bönkunum verði verra að eiga við þá en verið hefur almennt að því er varðar kröfuhafa í bönkunum.