141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

möguleg kaup lífeyrissjóðanna á Íslandsbanka.

[10:45]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég man ekki nákvæmlega hversu stór eignarhluti ríkisins í Íslandsbanka er en hann er væntanlega mjög lítill. Fari þessi sala fram verður hún væntanlega á hinum frjálsa markaði, ef má orða það þannig. Ég ætla ekki að fara að rifja upp með hæstv. ráðherra — mér sýnist menn vera að segja 5%, ég veit ekki hvort ég skil þetta rétt utan úr sal. Þetta setti mig alveg út af laginu.

Það sem ég ætlaði að segja er að það er hins vegar mikilvægt fyrir okkur að gera okkur grein fyrir því, fari þessi sala fram, hvort við séum þá sammála um það hér að koma þeim skilaboðum á framfæri að ríkissjóður hafi áhuga á að nýta með einhverjum hætti söluhagnað, t.d. erlendra aðila sem kunna að eiga bankana í dag, til að lækka skuldir skuldugra heimila.

Við höfum margoft talað um það, við framsóknarmenn höfum reyndar ekki endilega verið sammála um að það sé erfitt að fara þá leið, (Forseti hringir.) en ég hygg að það hljóti að vera mjög freistandi að ná í einhverja aura þarna sé það hægt án þess að brjóta landslög, jafnræðisreglur og slíkt.