141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

möguleg kaup lífeyrissjóðanna á Íslandsbanka.

[10:46]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég held að við séum alveg sammála um að við eigum að nýta allt það svigrúm sem við getum lögum og reglum samkvæmt til að hjálpa heimilunum. Það er það sem við höfum verið að gera. Við höfum ekki nema tvær færar leiðir til þess, samninga og skattlagningu. Við höfum vissulega skattlagt bankana og þeir hafa líka stundum kvartað yfir því. Það er hægt að gera það með eignarnámi en ég býst ekki við að hv. þingmaður sé að tala um þá leið og ekki mundi ég vilja fara hana.

Hv. þingmaður og formaður Framsóknarflokksins hafa stundum talað um að deila þurfi með almenningi þeim hagnaði sem kröfuhafar hafa fengið og þeir sem eiga bankana. Það væri fróðlegt að vita hvernig þeir hafa hugsað sér að gera það. Hvaða leiðir eru færar í því efni?

Ég fullvissa hv. þingmann um að við munum setjast yfir allar færar leiðir sem við getum orðið sammála um (Forseti hringir.) til að ná peningum af bönkunum og færa skuldugum heimilum.