141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

kostnaður við samninga hjúkrunarfræðinga.

[11:00]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er rétt að það koma peningar inn í þessari lotu frá ríkinu. Það hefur verið upplýst. Í þessa lausn voru settar um 400 milljónir. Það á að vísu eftir að ganga frá og reikna nákvæmlega út hverjar þessar tölur verða.

Það má ekki gleyma því að Landspítalinn er með veltu upp á um 38 þús. milljónir sem verið er að vinna með og þeir treystu sér sjálfir og buðust til að loka dæminu með því leggja dálítinn pening þarna inn. Við eigum eftir að fara yfir með þeim með hvaða hætti þeir fjármagna það. Það á líka eftir að koma í ljós.

Auðvitað verður haldið áfram að vinna stofnanasamninga fyrir aðrar stéttir sem hafa eftir því leitað. Það er búið að slá tóninn, eins og hv. þingmaður orðaði það, hvað það varðar og farið verður eftir þeim markmiðum sem við settum okkur varðandi jafnlaunaátakið þar sem við erum að vinna í því að reyna að bæta kjör stétta sem hafa setið eftir hvað varðar kjör, einmitt hefðbundinna velferðar- og kvennastétta, (Forseti hringir.) ef við getum orðað það svo. Það er verkefnið fram undan og þingið mun koma að því ásamt ríkisstjórn að finna út með hvaða hætti og hvaða upphæðum við eyðum til að leysa það mál.