141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

breytingar á stjórnarskrá.

[11:03]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að gefa mér það fyrir fram að lyktir á þessu máli áður en þing fer heim verði þær að málið verði afgreitt hér með litlum minni hluta. Ég fagna því mjög að Framsóknarflokkurinn hefur ljáð máls á ýmsum breytingum að því er varðar stjórnarskrána, mikilvægum breytingum, eins og auðlindaákvæðið, beina lýðræðið og reyndar fleiri atriði, dómsmálin og sveitarstjórnarmálin, þannig að mér finnst mjög jákvætt hvernig Framsóknarflokkurinn hefur tekið á þessu máli og opnað fyrir breytingar sem eru reyndar þær sömu og við ræddum hér 2009 en sjálfstæðismenn komu í veg fyrir. Ég vænti liðsinnis Framsóknarflokksins í þessu máli, að við getum náð saman um að fá farsæla niðurstöðu fyrir þjóðina og að hún verði með þeim hætti að sú hætta verði ekki fyrir hendi sem hv. þingmaður óttast að loknum næstu kosningum.

Ég held að það sé mjög mikilvægt að við förum að þjóðarvilja í þessum efnum og göngum eins langt og við getum í samræmi við niðurstöður stjórnlagaráðs. Við eigum vissulega við það að glíma að álit Feneyjanefndarinnar er komið þar sem stjórnskipanin er til dæmis mikið gagnrýnd í þessum tillögum. Við þurfum að fara mjög vandlega yfir hvernig á að fara með það ákvæði. En ég vænti þess að við getum átt góða samvinnu við Framsóknarflokkinn eins og aðra flokka á þingi um að fá sem farsælastar lyktir í þetta mál.