141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

samskipti lögregluyfirvalda við FBI og aðkoma innanríkisráðherra.

[11:23]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Ég ætla að varpa ljósi á þessa svokölluðu yfirvofandi netárás. Ég kannaði aðeins netheimana af því að upp kom nafn á samtökum sem eru kölluð LulzSec, að þau hefðu staðið fyrir þessari árás. Það kemur í ljós að aðili sá sem ræddi við þennan unga mann sem fór í sendiráðið á vegum samtakanna LulzSec heitir Sabu. Það kom jafnframt í ljós að honum hafði verið snúið við og að hann var kominn á mála hjá FBI út af mjög grófum hótunum gagnvart fjölskyldu hans, þ.e. ef hann gerðist ekki flugumaður fyrir FBI.

Mig langaði í því ljósi að spyrja: Er möguleiki að öll þessi stóra aðgerð FBI til að koma til landsins hafi verið hönnuð og sniðin í heimahögum þeirra? Það má geta þess að Wikileaks hefur ekki frumkvæði að gagnaöflun, það virðist vera einhver misskilningur um það meðal sumra þingmanna. Wikileaks stendur ekki fyrir árásum inn í fyrirtæki eða stofnanir. Wikileaks tekur við gögnum frá afhjúpendum, „whistle blowers“, á sama máta og fjölmiðlar.

Það voru „Siggi“ og Sabu, sem vann fyrir FBI, sem spunnu upp hættu á árás sem var samofin lygum. Það mætti teljast hjákátlegt ef alvara málsins væri ekki svona mikil. Íslensk yfirvöld kokgleyptu skýringu FBI en hefðu getað sparað sér ferðina til Bandaríkjanna með smárannsóknarvinnu. Jafnframt bera þau ábyrgð á þeirri neyðarlegu stöðu að hafa opnað hér gátt fyrir FBI til að koma til landsins á fölskum forsendum.

Ég ætla að gera söguna enn meira absúrd, það má leiða að því líkur að þessi ungi maður hafi gengið til liðs við FBI eftir að hann fór til Bandaríkjanna. (Forseti hringir.) Það má lesa um aðkomu hans og þá hættu sem lygar hans hafa sett marga í sem vildu endilega verða sjálfboðaliðar fyrir Wikileaks í bókinni We Are Anonymous: Inside the Hacker World of LulzSec. Þessi maður sagðist vera starfsmannastjóri fyrir Wikileaks og fór víða um heim á þeim fölsku forsendum.