141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

samskipti lögregluyfirvalda við FBI og aðkoma innanríkisráðherra.

[11:25]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Það er margt óskiljanlegt við þetta mál. Stóra spurningin hlýtur að vera: Hverjir eru íslensku hagsmunirnir í þessu máli sem hæstv. innanríkisráðherra er svo umhugað um að verja?

Ég spurði hæstv. ráðherra á fundi utanríkismálanefndar í morgun hvort hann gæti fullyrt, eins og hv. þingmaður, formaður allsherjar- og menntamálanefndar, Björgvin G. Sigurðsson, gerði áðan, að þetta væru tvö aðskilin mál. Ég ætla að spyrja hæstv. ráðherra núna: Getur ráðherra fullyrt að rannsóknin á tölvuárás á Stjórnarráð Íslands tengist ekki Wikileaks með neinum hætti? Hann gat það ekki á fundinum í morgun en ég ætla að spyrja hann hér, í þessum þingsal: Getur hæstv. ráðherra fullyrt að svo sé ekki? Þetta skiptir miklu máli.

Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir fullyrti að það hefði komið fram í allsherjarnefnd að þetta væri eitt og sama málið, að saksóknari hefði sagt það. Við höfum ekki fengið gögn sem styðja að svo sé ekki. Hæstv. ráðherra hengir sig á að það hafi þurft framhaldsréttarbeiðni. Af hverju í ósköpunum settust þá ekki ráðherrann og lögregluyfirvöld niður og ræddu þetta mál? Mér finnst það blasa við í þessu samhengi. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson lýsti beinlínis vantrausti á lögregluyfirvöld í landinu og mér finnst þessi samskipti fullkomlega óeðlileg.

Mér finnst þetta líka snúast um samskipti og trúnað sem verður að ríkja á milli okkar og annarra ríkja. Árið 2006 var við brottför varnarliðsins skrifað undir samstarfsyfirlýsingu þar sem sérstaklega var tekið til (Forseti hringir.) samstarfs á sviði löggæslu og landamæraöryggis til að hamla gegn og verjast ógnum sem steðja að báðum ríkjum frá alþjóðlegum hryðjuverkum, þar með talið æfingum, þjálfun og starfsmannaskiptum. (Forseti hringir.) Þar er sérstaklega tiltekin alríkislögregla Bandaríkjanna. Þetta er nauðsynlegt að hafa í huga vegna þess að trúnaðarbrestur á þessu sviði mun frekar bitna á Íslendingum en Bandaríkjamönnum, það vil ég leyfa mér að fullyrða.