141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

samskipti lögregluyfirvalda við FBI og aðkoma innanríkisráðherra.

[11:28]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Því er haldið fram í þessari umræðu að ákvarðanir hæstv. innanríkisráðherra séu af pólitískum toga. Eina pólitíkin sem ég hef heyrt í þessu máli er frá hv. málshefjanda, þingmanninum Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, sem talar um einhverja Kanafóbíu. Það er sem sagt kjarni málsins og endurspeglaðist líka í ræðu hv. þm. Ragnheiðar Elínar Árnadóttur. Það má ekki koma við Bandaríkin eða FBI, þá fer allt í loft upp. Þetta snýst um það og þannig blasir þetta við. Ég vona að það sé rangt hjá mér en þannig blasir það við í því máli og málflutningi sem þessir hv. þingmenn hafa haldið fram í málinu. Ég vona að mér skjátlist hvað þetta varðar vegna þess að það er ekki gott, en þetta er eina pólitíkin sem ég hef heyrt í þessu máli.

Ég hef komið að þessu máli á vettvangi utanríkismálanefndar þar sem hæstv. innanríkisráðherra hefur gert grein fyrir samskiptunum við erlend stjórnvöld hvað þetta varðar. Samkvæmt ósk frá formanni nefndarinnar hefur nefndinni einnig borist minnisblað þar um frá utanríkisráðuneytinu. Það sem mér finnst blasa við eftir þessa yfirferð og þau gögn sem hafa verið reidd fram í málinu, menn auðvitað ganga út frá þeim og hæstv. ráðherra hefur gert grein fyrir þeim, er að hin upphaflega réttarbeiðni náði ekki til þess máls sem síðar kom upp.

Hér er því haldið fram að þetta sé eitt og sama málið. Ég er ekki sammála því mati. (Gripið fram í.) Hér hefur þegar verið vísað í minnisblað sem var afhent utanríkismálanefnd í morgun, í tölvupóstssamskipti frá bandaríska dómsmálaráðuneytinu hinn 24. ágúst, þar sem spurt er um þessi mál með almennum orðum án þess að vísa í réttarbeiðnina sem áður hafði verið óskað eftir. Það sýnir að mínu viti að hér er um tvö mál að ræða, algjörlega hvort sitt málið ef menn fara yfir þessi gögn. (Gripið fram í.)