141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

samskipti lögregluyfirvalda við FBI og aðkoma innanríkisráðherra.

[11:35]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Mér finnst eiginlega augljóst hvað gerðist. Hér voru menn að reyna að komast inn í landið á fölskum forsendum eins og ráðherra og fleiri þingmenn hafa bent á og lýst vel. Af hverju lögðu mennirnir ekki fram nýja réttarbeiðni? Af hverju gerðu þeir það ekki? Mátti ekki vera opinbert að FBI væri að reyna að rannsaka Wikileaks hér á landi? (Gripið fram í.) (VigH: Þeir voru búnir að sjá til þess að … formleg heimsókn.) Trúir því einhver að menn hafi flogið hingað með fulla flugvél af rannsóknarmönnum og saksóknurum og ég veit ekki hverju til þess að aðstoða Íslendinga við að koma í veg fyrir netárás? (Gripið fram í: Það er nú málið.) Er þetta eitthvert grín? (Gripið fram í.)

Við skulum bara hafa það á hreinu að það er innanríkisráðuneytisins að afgreiða réttarbeiðnir og þegar menn fara augljóslega út fyrir þær hlýtur það líka að vera innanríkisráðherra og ráðuneytisins að skerast í leikinn ef menn leggja ekki fram framhaldsréttarbeiðni. Það gerði ráðherra og það er vel.

Við verðum að láta af þessu löggublæti hérna. Lögreglan á ekki að komast upp með (Gripið fram í.) að gera það sem henni sýnist. Við eigum að bera virðingu fyrir lögreglunni (Gripið fram í.) en hún er ekki hafin yfir gagnrýni. (Gripið fram í.) Og við skulum líka átta okkur á því hverjir hagsmunir Íslands eru, okkar allra hérna, þeir liggja í því að erlent lögreglulið fái ekki að vaða hér uppi án þess að fyrir því séu leyfi frá stjórnvöldum. (Gripið fram í.) Þá þurfa menn líka að lýsa því nákvæmlega (ÞKG: Það var nákvæmlega sagt.) sem þeir biðja um. (Gripið fram í: Ekki fara með svona …)